Tilkynning frá Eimskip


Eimskip vill upplýsa að félagið ElbFeeder Inc., sem Eimskip á 48% eignarhlut í og er skráð sem hlutdeildarfélag, hefur í dag náð samkomulagi um sölu á einu af gámaskipum sínum. Viðskiptin eru með fyrirvara um lokafrágang skjala og gert er ráð fyrir að formleg eigendaskipti verði í september. Skipið sem um ræðir er 11 ára og er selt til áframhaldandi rekstrar til félags í eigu Ernst Russ AG í Þýskalandi. Skipið er nú í leigu til allt að þriggja og hálfs árs til þriðja aðila.

Hlutdeild Eimskips í rekstri ElbFeeder Inc. er skráð í rekstrarreikning Eimskips undir liðnum Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga (Share of profit of equity accounted investees). Að sölunni frágenginni mun hún hafa jákvæð áhrif á afkomu Eimskips á þriðja ársfjórðungi 2021 sem nemur um það bil þremur milljónum evra.

ElbFeeder Inc. er skipaeignarhaldsfélag sem mun eftir söluna eiga sex gámaskip á stærðar bilinu 700 – 3.000 teus og eru þau öll á leigu til ýmissa skiparekstraraðila. Alþjóðlega skiparekstrarfélagið Ernst Russ AG í Þýskalandi, sem er skráð í kauphöllina í Frankfurt (Scale segment), er meirihluta eigandi í ElbFeeder Inc.

FREKARI UPPLÝSINGAR
Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs, sími: 825 3399, netfang: investors@eimskip.com.