Eimskip: Breytingar á samningum um viðskiptavakt


Breytingar hafa verið gerðar á samningum við Arion Banka hf. og Íslandsbanka hf. um viðskiptavakt með hluti í Eimskipafélag Íslands hf. í Nasdaq kauphöllinni á Íslandi. Breytingarnar eru aðallega gerðar í tengslum við innleiðingu á MiFID II reglugerðinni og taka gildi 2. september 2021.

Breytingar á skilmálum viðskiptavaktar Arion banka eru eftirfarandi:

Verðbil kaup- og sölutilboða skal nú ákvarðað með hliðsjón af verðskrefatöflu Nasdaq Iceland hf. eins og hún er hverju sinni þannig að verðbil verði sem næst 1,5% en þó ekki minna en 1,45%. Þó skal viðskiptavaka vera heimilt að fara tímabundið undir framangreint viðmið svo sem vegna aðstæðna sem skapast vegna verðskrefatöflu Kauphallarinnar.

Breytingar á skilmálum viðskiptavaktar Íslandsbanka eru eftirfarandi:

Verðbil kaup- og sölutilboða skal ákvarðað með hliðsjón af verðskrefatöflu Kauphallarinnar eins og hún er hverju sinni þannig að verðbil verði sem næst 1,5% en þó ekki minna en 1,45%. Þó skal viðskiptavaka vera heimilt að fara tímabundið undir framangreint viðmið s.s. vegna aðstæðna sem skapast vegna verðskrefatöflu Kauphallarinnar.

Fjárhæð kaup- og sölutilboða viðskiptavaka skal að lágmarki nema 30.000 kr. að nafnvirði á gengi sem ISB ákveður, þó ekki með meira en 3% fráviki frá síðasta viðskiptaverði. Eigi ISB viðskipti með bréf félagsins fyrir 240.000 kr. að nafnvirði eða meira í sjálfvirkri pörun (e. „automatch“) innan dags, sem fer um veltubók ISB (eigin viðskipti bankans), falla niður skyldur um hámarksverðbil kaup- og sölutilboða innan þess dags. Ef verðbreyting innan viðskiptadags er umfram 5,0% er ISB heimilt að tvöfalda hámarksverðbil milli kaup-og sölutilboða tímabundið þann daginn.

Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs í síma 825-3399 eða á investors@eimskip.is