Reginn hf.: Nýr framkvæmdastjóri fjármála


Rósa Guðmundsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri fjármála hjá félaginu og mun hefja störf í lok október. Rósa tekur við starfinu af Jóhanni Sigurjónssyni sem mun starfa áfram innan félagsins í nýju starfi.

Rósa hefur víðtæka reynslu af innlendri og erlendri fjármálastarfsemi. Hún hefur undanfarin fjögur ár starfað sem forstöðumaður sparnaðar og útlána á einstaklingssviði Íslandsbanka, þar sem hún bar m.a. ábyrgð á inn- og útlánum til einstaklinga sem og sölu á verðbréfum til almennra fjárfesta og séreignasparnaði bankans. Þá hefur hún á sl. árum leitt innleiðingu á stafrænum lausnum sem stutt hafa umbreytingar í einstaklingsþjónustu bankans en frá árinu 2019 hefur hún borið ábyrgð á forgangsröðun verkefna á upplýsingatæknisviði sem snúa að útlánavörum bankans.

Rósa hóf störf á alþjóðasviði Íslands­banka árið 2004 í kjöl­far fram­hald­náms í Banda­ríkj­un­um. Á árunum 2006-2016 starfaði hún sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði og í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka þar sem hún vann að fjármögnun margra stærstu fyrirtækja í viðskiptum við bankann. Þá starfaði Rósa sem sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum á árunum 2016-2017 og sat samhliða því í stjórn Allarahanda GL ehf. og sem varamaður í stjórn Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar hf.  Rósa var stjórnarformaður Borgunar hf. árin 2011-2015.

Rósa er með M.S. gráðu í iðnaðarverkfræði og aðgerðargreiningu frá Pennsylvania State University og B.S. gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Þá hefur Rósa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Framkvæmdastjóri fjármála heyrir beint undir forstjóra og situr í framkvæmdastjórn félagsins. Rósa mun hefja störf hjá Reginn í lok október.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Helgi S. Gunnarsson – Forstjóri – helgi@reginn.is – S: 512 8900 / 899 6262

Viðhengi


Rósa Guðmundsdóttir