Skeljungur hf.: Niðurstöður hluthafafundar Skeljungs 7. október 2021

Reykjavik, ICELAND


Niðurstöður hluthafafundar Skeljungs hf. sem haldinn var fimmtudaginn 7. október 2021

Hluthafafundur Skeljungs hf. („Skeljungur“ eða „félagið“) var haldinn í dag, fimmtudaginn 7. október 2021, á Icelandair Hótel Reykjavík Natura í sal 2, Nauthólsvegi 52, 102 Reykjavík. Fundurinn hófst kl. 16:00.

Tillögur þær sem lágu fyrir fundinum má finna á heimasíðu félagsins:

https://www.skeljungur.is/hluthafafundur-2021

  

  1. Tillaga um sölu dótturfélags Skeljungs í Færeyjum, P/F Magn

Hluthafafundur samþykkti sölu á dótturfélagi Skeljungs í Færeyjum, P/F Magn.

Til nánari upplýsinga um söluferlið er vísað til tilkynninga félagsins, sem má finna á heimasíðu Skeljungs undir Kauphallarfréttir, en þær hafa samtals verið sjö talsins.

  

  1. Tillaga um viðbótar heimild félagsins til kaupa á eigin hlutum með útboðsfyrirkomulagi 

Hluthafafundur veitti stjórn heimild til kaupa á eigin hlutum með útboðsfyrirkomulagi, til viðbótar við núgildandi heimild um endurkaup samkvæmt formlegri endurkaupaáætlun.

Eftirfarandi viðauki mun bætast við samþykktir félagsins:

„Heimild félagsins til að kaupa eigin hluti, samþykkt á hluthafafundi þann 7. október 2021

Hluthafafundur Skeljungs hf., haldinn þann 7. október 2021, heimilar stjórn félagsins, að öðrum lagaskilyrðum uppfylltum, að kaupa í eitt skipti eða oftar, fram að næsta aðalfundi, hluti í félaginu, þó þannig að það ásamt dótturfélögum þess megi einungis eiga mest 10% hlutafjár þess. Heimild þessi skal nýtt í þeim tilgangi að setja upp formlega endurkaupaáætlun eða til að gera hluthöfum almennt tilboð um kaup félagsins á eigin hlutum, til dæmis með útboðsfyrirkomulagi, enda sé jafnræðis hluthafa gætt við boð um þátttöku í slíkum viðskiptum. Við endurkaup skal hæsta leyfilega endurgjald fyrir hvern hlut ekki vera hærra en sem nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í þeim viðskiptakerfum þar sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem er hærra. Viðskipti félagsins með eigin hluti skulu tilkynnt í samræmi við lög og reglugerðir. Aðrar eldri heimildir til kaupa á eigin hlutum falla úr gildi við samþykkt heimildar þessarar.“

  

  1. Tillaga stjórnar um breytingar á samþykktum félagsins

Hluthafafundur samþykkti eftirfarandi breytingar á d. lið 4. mgr. 18. gr. samþykkta Skeljungs:

Að fella brott  d)-lið 4. mgr. 18. gr. samþykktanna í heild. Allir stafliðir í 4. mgr. 18. gr. samþykktanna munu haldast óbreyttir, en við staflið „d“ kemur tilgreiningin „[Felld brott]“.

Hluthafafundur samþykkti eftirfarandi breytingar á 3. gr. samþykkta félagsins:

Að breyta orðalagi 3. gr. þannig að greinin hljóði svo:

„Tilgangur félagsins er að eiga og stýra félögum sem eru m.a. á sviði smásölu og heildsölu, rekstur fasteigna, skipa og þjónustustöðva. Ennfremur lána- og fjárfestingastarfsemi og annar atvinnurekstur eða þátttaka í atvinnurekstri, samkvæmt ákvörðun félagsstjórnar.“


  1. Tillaga stjórnar um uppskiptingu rekstrar félagsins og stofnun dótturfélaga

Hluthafafundur samþykkti uppskiptingu rekstrar félagsins og stofnun tveggja dótturfélaga um reksturinn; annað fyrir rekstur starfsemi á einstaklingssviði og hitt fyrir starfsemi á fyrirtækjasviði. 


  1. Önnur mál

Engin önnur mál voru löglega upp borin á fundinum og var honum slitið kl. 17:02.

Önnur gögn frá hluthafafundi má finna á: https://www.skeljungur.is/hluthafafundur-2021.

*             *             *