Kvika banki hf.: LEIÐRÉTTING - Tilkynning um hækkun hlutafjár


Í tilkynningu um hækkun hlutafjár sem Kvika banki hf. ("félagið") sendi frá sér föstudaginn 29. október var fyrir mistök vísað til þess að stjórn hefði á fundi daginn áður nýtt heimild til að hækka hlutafé um kr. 117.256.300 að nafnvirði í þeim tilgangi að mæta nýtingu áskriftarréttinda. Um misritun var að ræða og hið rétta er að stjórn nýtti heimild til að hækka hlutafé félagsins um kr. 27.425.008 að nafnvirði til að mæta nýtingu áskriftarréttinda. Enska útgáfa tilkynningarinnar var rétt. Hér á eftir fylgir leiðrétt tilkynning:


Þann 28. október sl. tilkynnti Kvika banki hf. ("félagið") að stjórn hefði nýtt heimild sína samkvæmt bráðabirgðaákvæðum II og IV í samþykktum félagsins til að hækka hlutafé þess um kr. 27.425.008 að nafnvirði í þeim tilgangi að mæta nýtingu áskriftarréttinda.

Samkvæmt 19. gr. laga um upplýsingaskyldu útgefanda verðbréfa og flöggunarskyldu nr. 20/2021 skal útgefadi, ef hann hækkar eða lækkar hlutafé sitt eða fjölgar eða fækkar atkvæðum, við fyrsta tækifæri og eigi síðar en á síðasta viðskiptadegi mánaðar birta opinberlega heildarfjölda hluta og heildarfjölda atkvæða.

Framangreind hlutafjárhækkun hefur nú verið skráð hjá Fyrirtækjaskrá Skattsins og hlutafé félagsins stendur í kr. 4.892.769.932 að nafnvirði. Þar af eru eigin hlutir 117.256.300 að nafnvirði, en auk þess á TM tryggingar hf., dótturfélag bankans, 6.400.000 hluti að nafnvirði. Hver hlutur er að fjárhæð ein króna og eitt atkvæði fylgir hverri einni krónu í hlutafé utan eigin hluta.

Óskað verður eftir því að hinir nýju hlutir verði gefnir út af Nasdaq verðbréfamiðstöð og sótt verður um töku þeirra til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland.