Sýn hf.: Jákvæð afkoma og nýjar tekjustoðir


Árshlutareikningur samstæðu Sýnar hf. fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2021 var samþykktur á stjórnarfundi þann 3. nóvember 2021.  

Helstu niðurstöður:

  • Tekjur á þriðja ársfjórðungi (3F) 2021 námu 5.533 m.kr. en tekjur hækka um 471 m.kr. frá sama tímabili árið 2020. Tekjur á fyrstu níu mánuðum ársins (9M) voru 15.822 m.kr. sem er 2,2% aukning frá sama tímabili árið 2020.
  • EBITDA nam 1.886 m.kr. á 3F 2021 samanborið við 1.593 m.kr. á 3F 2020. EBITDA hlutfallið var 34,1% á 3F 2021 samanborið við 31,5% á 3F 2020. EBITDA á fyrstu níu mánuðum ársins var 4.762 m.kr. sem er 10,4% hækkun frá 9M 2020.
  • Hagnaður á þriðja ársfjórðungi 2021 nam 172 m.kr. samanborið við 8 m.kr. hagnað á 3F 2020. Tap á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 nam 176 m.kr. samanborið við 402 m.kr. tap á 9M 2020. Inni í tapi á 9M 2021 er sölutap að fjárhæð 179 m.kr. vegna sölu á færeyska hlutdeildarfélaginu Hey.
  • Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum nam 1.756 m.kr. samanborið við 1.055 m.kr. á 3F 2020, sem er hækkun um 66,4%. Handbært fé frá rekstri á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 nam 3.730 m.kr. samanborið við 3.855 m.kr. á 9M 2020, sem er lækkun um 3,2%.  
  • Heildarfjárfestingar á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 námu 1.687 m.kr. þar af voru fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum (án sýningarrétta) 911 m.kr. og fjárfesting í sýningarréttum 1.826 m.kr. Greiðsla vegna sölu á eignarhluta nam 1.065 m.kr. og greiðsla vegna kaupa á eignarhluta nam 15 m.kr.
  • Fjármögnunarhreyfingar á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 voru neikvæðar um 2.439 m.kr. á móti 1.932 m.kr. á 9M 2020. Söluandvirði af Hey var notað til að greiða niður langtímatímalán og lækka lánalínur.
  • Eiginfjárhlutfall félagsins var 29,17% í lok þriðja ársfjórðungs 2021.
  • Þann 31. mars síðastliðinn var skrifað undir samninga um sölu á óvirkum farsímainnviðum félagsins. Enn er beðið eftir niðurstöðu eftirlitsaðila vegna sölunnar. Söluverði mun verða ráðstafað til lækkunar á lánum, endurkaupa á hlutabréfum og í nýfjárfestingar.  

Heiðar Guðjónsson, forstjóri:

„Við sýnum áfram mikinn bata í rekstri og sá viðsnúningur sem hófst fyrir ári síðan heldur áfram. Þrátt fyrir ýmsar ytri áskoranir, sem flestar eru enn til staðar, þá er rekstur okkar orðinn arðbær og væntingar eru um enn frekari árangur. Það er ánægjulegt að báðar tekjustoðirnar, fjarskipti og fjölmiðlar sýna aukningu tekna á síðasta fjórðungi.

Ég hef áður talað um möguleika fyrirtækisins á að fjölga tekjustoðum. Við erum með um helming allra heimila og fyrirtækja í föstu mánaðarlegu reikningssambandi og viljum útvíkka þjónustuframboð til okkar viðskiptavina. Þetta er í takt við stefnumótun fyrirtækisins sem við kynntum fyrir tveimur árum.

Stærsta fjárfesting okkar síðustu tvö ár hefur verið í upplýsingakerfunum. Nú eru innri kerfin okkar að verða í stakk búin að halda utan um nýjar þjónustur með skilvirkum hætti. Við erum því ánægð að kynna nýja starfsemi en það er færsluhirðing fyrir fyrirtæki. Við sjáum strax að okkar viðskiptavinir taka innkomu nýs aðila inn á markaðinn fagnandi.

Við bíðum enn niðurstöðu eftirlitsaðila vegna sölu á óvirkum farsímainnviðum.“


ViðhengiAttachments

Fjárfestafundur 3F 2021 - ISL Sýn hf. Fréttatilkynning 3F 2021 - ISL Syn hf. Samstaeduarshlutareikningur 3F 2021