EIMSKIP: Uppgjör þriðja ársfjórðungs 2021


Helstu atriði í afkomu þriðja ársfjórðungs

  • Góður árangur í bæði áætlunarsiglingum og flutningsmiðlun meðal annars vegna hagstæðra markaðstæðna á alþjóðavísu.
  • Áframhaldandi sterkur árangur í gámasiglingum sem rekja má til góðs magns, sérstaklega í útflutningi frá Íslandi og Trans-Atlantic flutningum, ásamt virkri tekjustýringu.
  • Frystiflutningar í Noregi skiluðu góðum árangri vegna góðrar nýtingar og betra jafnvægis í kerfinu.
  • Frábær árangur í alþjóðaflutningsmiðlun á markaði sem einkennist af mjög háum alþjóða flutningsverðum sem og skorðum á afkastagetu á alþjóðaflutningamörkuðum.
    • Metafkoma í starfsemi Eimskips í Asíu í fjórðungnum.
  • Tekjur námu 236,6 milljónum evra og hækkuðu um 66,2 milljónir evra eða 39% samanborið við Q3 2020.
  • Umtalsverðar verðhækkanir frá flutningsbirgjum hafa í för með sér samsvarandi aukningu í sölutekjum.
  • Góður tekjuvöxtur í flutningsmiðlun þrátt fyrir minna magn.
  • Kostnaður nam 199,8 milljónum evra sem er hækkun um 34% og skýrist að mestu af verulegri aukningu í kostnaði vegna kaupa á þjónustu flutningsbirgja fyrir hönd viðskiptavina.
    • Launakostnaður hækkar um 4,3 milljónir evra eða um 17%. Þar af nema gjaldeyrisáhrif 1,7 milljónum evra  og 2,6 milljónir evra eru m.a. vegna aukinna umsvifa og almennra launahækkana.
  • Verulegur vöxtur var í EBITDA eða um 15,4 milljónir evra og nam EBITDA fjórðungsins 36,8 milljónum evra samanborið við 21,4 milljónir evra fyrir sama tímabil ársins 2020.  EBITDA hlutfall var 15,5% samanborið við 12,6% fyrir sama tímabil síðasta árs. EBIT nam 23,8 milljónum evra samanborið við 10,4 milljónir evra sem er hækkun um 13,4 milljónir evra fyrir sama tímabil ársins 2020.
  • Framlag frá hlutdeildarfélögum var gott á fjórðungnum, einkum vegna hlutdeildar Eimskips í söluhagnaði á einu af skipum Elbfeeder að fjárhæð 3,0 milljónir evra eins og tilkynnt var í ágúst 2021.
  • Hagnaður tímabilsins nam 20,7 milljónum evra samanborið við 6,2 milljónir evra fyrir sama tímabil ársins 2020.
  • Eiginfjárhlutfall nam 41,3% og aðlagað skuldsetningarhlutfall var 2,18 sem bæði eru í samræmi við útgefin markmið.

Helstu atriði í afkomu fyrstu níu mánaða ársins 2021 

  • Tekjur námu 628,0 milljónum evra og hækkuðu um 135,3 milljónir evra eða 27,5% samanborið við sama tímabil 2020. 
  • Aðlagaður kostnaður nam 545,2 milljónum evra sem er hækkun um 99,3 milljónir evra milli tímabila sem skýrist að mestu af auknum  umsvifum og kostnaði tengdum flutningsbirgjum.
    • Kostnaður er aðlagaður vegna sáttar sem gerð var við Samkeppniseftirlitið á öðrum ársfjórðungi að fjárhæð 10,2 milljónir evra.
  • Góð aukning í EBITDA þar sem aðlöguð EBITDA nam 82,8 milljónum evra samanborið við  46,7 milljónir evra fyrir sama tímabil síðasta árs sem er aukning um 36,1 milljón evra.  Aðlagað EBIT nam 45,8 milljónum evra samanborið við 13,9 milljónir evra fyrir sama tímabil síðasta árs.
  • Veruleg aukning var í hagnaði tímabilsins þar sem aðlagaður hagnaður nam 36,9 milljónum evra samanborið við 3,7 milljónir evra fyrir sama tímabil 2020. 
  • Fjárfestingar tímabilsins námu 9,4 milljónum evra samanborið við 32,8 milljónir evra fyrir sama tímabil síðasta árs, en þar af voru fjárfestingar í nýjum skipum á fyrstu níu mánuðum síðasta árs 18,5 milljónir evra.
  • Uppfærð aðlöguð afkomuspá fyrir allt árið 2021 er á bilinu 102 – 110 milljónir evra en var áður á bilinu 90 - 100 milljónir evra. Aðlagað EBIT áætlað á bilinu 51 - 59 milljónir evra.
    • Byggir á rauntölum úr rekstri fyrstu níu mánaða 2021 og uppfærðri rekstrarspá fyrir það sem eftir lifir ársins.

VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI

„Ég er mjög ánægður með áframhaldandi sterkan rekstrarárangur á þriðja ársfjórðungi. Niðurstöðurnar einkennast af góðu framlagi frá bæði áætlunarsiglingum og flutningsmiðlun sem eru helstu drifkraftar bættrar afkomu. Þær óvenjulegu markaðsaðstæður sem hafa verið á alþjóðaflutningamörkuðum halda áfram að vera krefjandi og sem fyrr hafa þessar aðstæður bæði áhrif á tekjur og kostnað. Við teljum okkur þó vera farin að sjá fyrstu merki um stöðugleika í alþjóðlegum verðvísitölum.

EBITDA á fjórðungnum var sterk og nam 36,8 milljónum evra og hefur hagnaður aldrei verið meiri á einum fjórðungi en hann nam 20,7 milljónum evra. Við áttum annan góðan ársfjórðung í gámasiglingakerfinu sem rekja má til góðrar magnþróunar, sérstaklega í útflutningi frá Íslandi og Trans-Atlantic flutningum, ásamt virkri tekjustýringu. Frystiflutningar í Noregi skiluðu einnig góðum árangri vegna góðrar nýtingar og betra jafnvægis í kerfinu. Í alþjóðaflutningsmiðluninni náðum við frábærum árangri á markaði sem einkennist af mjög háum alþjóða flutningsverðum ásamt skorðum á afkastagetu á alþjóðaflutningsmörkuðum. Þá er ég mjög ánægður að sjá metafkomu í fjórðungnum af starfseminni okkar í Asíu.

Magn í Trans-Atlantic flutningum hefur farið stöðugt vaxandi frá árinu 2017 þegar vikulegar siglingar hófust. Frá fyrsta ársfjórðungi þessa árs höfum við verið með fullnýtt skip á vesturleiðinni til Norður Ameríku og jókst magnið á þriðja ársfjórðungi um 50% samanborið við sama fjórðung síðasta árs. Magnið í Trans-Atlantic gerir okkur kleift að bjóða viðskiptavinum uppá vikulega þjónustu milli Íslands og Norður Ameríku.

Í krefjandi alþjóðlegu umhverfi hefur okkur tekist að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu í áætlunarsiglingum og flutningsmiðlun þar sem staða okkar sem leiðandi flutningafyrirtæki á Norður-Atlantshafi með öflugt alþjóðlegt skrifstofunet kemur sér vel. Við byggjum á sterkum viðskiptasamböndum og sérfræðiþekkingu starfsmanna okkar og erum vel staðsett á markaðnum með áherslu okkar á flutning á frystum og kældum vörum.

Þrátt fyrir krefjandi aðstæður á alþjóðlegum flutningamörkuðum þá er útlitið fyrir fjórða ársfjórðung gott og af þeim sökum höfum við hækkað afkomuspá fyrir árið í heild.“

KYNNINGARFUNDUR 10. NÓVEMBER 2021

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. samþykkti samandreginn árshlutareikning samstæðu Eimskips fyrir þriðja ársfjórðung  2021 á stjórnarfundi þann 9. nóvember 2021. Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn miðvikudaginn 10. nóvember kl. 8:30 í höfuðstöðvum félagsins Sundabakka 2, 2. hæð. Þátttakendur eru vinsamlega beðnir um að skrá sig fyrir lok dags 9. nóvember. Fundurinn verður einnig rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips www.eimskip.com/investors. Þar munu Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri og María Björk Einarsdóttir fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins fyrir þriðja ársfjórðung. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.

FREKARI UPPLÝSINGAR

Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs, sími: 825 3399, netfang: investors@eimskip.com .

María Björk Einarsdóttir, fjármálastjóri , sími: 825 7350, netfang: maria@eimskip.com.

TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA

Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.

Viðhengi



Attachments

Eimskip - Consolidated Interim Financial Statements Q3 2021 Eimskip - Q3 2021 Financial Results - Investor Presentation