Skeljungur hf.: Kaupsamningur undirritaður og skjalagerð lokið vegna sölu Skeljungs á P/F Magn til Sp/f Orkufélagsins


Eins og tilkynnt var um 2. september sl. gekk Skeljungur til einkaviðræðna við Sp/f Orkufélagið um sölu á öllu hlutafé í dótturfélagi Skeljungs í Færeyjum, P/F Magn á grundvelli kauptilboðs þar um. Hinn 31. október sl. var tilkynnt um að fyrirvörum kauptilboðs Sp/f Orkufélagsins varðandi fjármögnun og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar hafi ýmist verið fullnægt eða fallið hafi verið frá þeim. Í tilkynningunni kom jafnframt fram að Skeljungur hafi samþykkt að taka þátt í fjármögnun Sp/f Orkufélagsins með þeim hætti að endurfjárfesta allt að 23% heildarsöluverðs í viðskiptunum í Sp/f Orkufélaginu. Þá kom fram að nánari grein yrði gerð fyrir fjárhagslegum áhrifum og aðkomu Skeljungs að Sp/f Orkufélaginu við lokafrágang skjala.

Kaupsamningur vegna viðskiptanna hefur nú verið undirritaður og frágangi annarra skjala vegna þeirra lokið. Skeljungur mun endurfjárfesta um 23% af heildarsöluverði viðskiptanna í Sp/f Orkufélaginu eða 2.823 milljónum króna (141 miljónum DKK m.v. gengi DKK/ISK 20). Skeljungur mun þannig eignast 48,3% eignarhlut í Sp/f Orkufélaginu með skráningu á nýjum hlutum í félaginu samtals að fjárhæð 2.441 milljón króna (122 milljónir DKK) auk lánveitinga í tengslum við viðskiptin að fjárhæð 382 milljónum króna (19 milljónir DKK). 

Fjárfesting Skeljungs verður flokkuð sem eignarhluti í  hlutdeildarfélagi þegar öllum fyrirvörum hefur verið aflétt og afhending hefur átt sér stað.  Í því felst að Skeljungur mun færa 48,3% hlutdeild í afkomu Orkufélagsins í rekstrarreikning sinn.

Samkvæmt ofangreindu eru áætluð áhrif viðskiptanna á efnahag Skeljungs, miðað við árshlutareikning 30. september sl., þau að nettó vaxtaberandi skuldir lækka um 2,1 milljarð króna, handbært fé eykst um 7,2 milljarða og eigið fé mun hækka um u.þ.b. 6 milljarða króna miðað við ofangreindar forsendur.

Framangreint er, eftir sem áður, háð samþykki samkeppniseftirlitsins í Færeyjum en það er eini útistandandi fyrirvari viðskiptanna.  Fram að afhendingu verður rekstur P/F Magn hluti af samstæðureikningi Skeljungs.

Sp/f Orkufelagið er færeyskt félag með reynslumikla starfsmenn í orku- og smásölurekstri. Sp/f Orkufelagið hefur það að markmiði að verða leiðandi aðili í öllum tegundum orkurekstrar í Færeyjum.  Teitur Poulsen er stjórnarformaður Sp/f Orkufelagsins.

Nánari upplýsingar veitir Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, fjarfestar@skeljungur.is

www.skeljungur.is

https://www.linkedin.com/company/skeljungur-hf/