203 M.KR. AFGANGUR VERÐUR Á REKSTRI MOSFELLSBÆJAR ÁRIÐ 2022


  • Áformað er að bæjarsjóður verði rekinn með 203 m.kr. afgangi á næsta ári.
  • Gert er ráð fyrir afgangi af rekstrinum þrátt fyrir að lagt sé til að bæði leikskólagjöld og álagningarprósentur fasteignagjalda lækki.
  • Veltufé frá rekstri verður jákvætt um 1.476 m.kr. eða 9,5% af heildartekjum. 
  • Framkvæmt verður fyrir um þrjá milljarða til að byggja upp innviði og efla samfélagið.
  • Skuldir sem hlutfall af tekjum munu lækka og skuldaviðmiðið verður 100,2% af tekjum í árslok. 
  • Álagningarhlutfall útsvars verður 14,48% sem er undir leyfilegu hámarki.
  • Íbúar eru 13.000 og mun fjölga um allt að 3,5% á næsta ári.

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2022 og næstu þrjú ár þar á eftir var samþykkt í bæjarstjórn þann 8. desember 2021.

Fjárhagsáætlun ársins 2022 ber því merki aukinna efnahagslegra umsvifa eftir það högg sem heimsfaraldur kórónaveirunnar er og þeirrar viðspyrnu sem Mosfellsbær hefur náð með ráðdeild í rekstri. Ráðdeildin hefur beinst að því að tryggja óbreytta eða aukna þjónustu auk áframhaldandi uppbyggingu innviða án þess að ganga of langt í lántöku. Þá endurspeglar áætlun næsta árs vel þá staðreynd að sveitarfélagið hefur burði til að mæta fjárhagslegum áföllum síðustu tveggja ára.  

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri:

„Markmið okkar í Mosfellsbæ við upphaf heimsfaraldursins var að ná viðspyrnu og verja þjónustu við íbúa. Fjárhagsáætlun ársins 2022 ber þess skýr merki að þeim markmiðum er náð sem endurspeglar í senn sterka stöðu sveitarfélagsins til að mæta tímabundnum fjárhagslegum áföllum og getu starfsfólks til að stýra starfseminni með farsælum hætti. Skýr stefna og skilvirk framkvæmd hennar eru þau tæki sem við höfum nýtt til þess að ná okkar markmiðum. Á síðustu tveim árum hafa minnkandi skatttekjur og aukinn rekstrarkostnaður vegna faraldursins haft mjög neikvæð áhrif á afkomu sveitarfélaga. Í fjárhagsáætlun ársins 2022 er gert ráð fyrir um 203 m.kr. afgangi af rekstri sveitarfélagsins. Þessi árangur næst ekki fyrir tilviljun heldur vegna þess að starfsfólki undir forystu bæjarstjórnar hefur tekist að laga rekstur sveitarfélagsins að breyttu fjárhagslegu umhverfi án þess að skerða þjónustu og jafnframt hefur verið bætt í þjónustuna í nokkrum tilfellum.

Ég vil leyfa mér að taka byggingu Helgafellsskóla, sem nú er komin í rekstur, sem dæmi um ráðdeild en skólinn var afhentur á réttum tíma og kostnaðurinn var 2% undir kostnaðaráætlun. Slíkur árangur næst ekki af sjálfu sér og liggur ekki hjá einum einstaklingi heldur vaskri sveit starfsmanna og stjórnenda.

Starfsemi Mosfellsbæjar gengur vel, íbúum heldur áfram að fjölga þó svo að hægt hafi á vextinum og starfsmenn standa vaktina sama á hverju dynur. Samstaða einkennir samfélag okkar Mosfellinga og íbúar eru samkvæmt könnunum ánægðir með þá þjónustu sem bærinn veitir. Allt eru þetta þættir sem skiptu sköpum við þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu.“

Helstu áherslur í fjárhagsáætlun 2022 eru:

  • Að afgangur verði af rekstri bæjarins þrátt fyrir að tekjur hafi lækkað vegna kórónaveirufaraldursins.
  • Að álagningarhlutföll fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði og atvinnurekstur lækki.
  • Að nýjum lóðum í Helgafellshverfi og á miðbæjarsvæði verði úthlutað fyrir fjölbreyttar íbúðargerðir.
  • Að gjaldskrár breytist í samræmi við breytingar á verðlagi og hækki því ekki að raungildi. Leikskólagjöld lækki um 5%.
  • Að hafin verði bygging nýs leikskóla í Helgafellshverfi og íþróttahúss við Helgafellsskóla.
  • Að hafin verði bygging þjónustubyggingar við íþróttamiðstöðina að Varmá.
  • Að dagvistunargjöld allra barna frá 12 mánaða aldri verði þau sömu óháð vistunarformi.
  • Að félagslegum íbúðum fjölgi.
  • Að hafnar verði framkvæmdir við stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra.

Nánari upplýsingar veita:

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í síma
525 6700, haraldur@mos.is.

Arnar Jónsson, forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar, s. 840 1244, arnar@mos.is.

Viðhengi



Attachments

Fjárhagsáætlun 2022-2025 - samþykkt 8. desember 2021