Kvika banki hf.: Kvika gefur út EMTN skuldabréfaramma til útgáfu á Írlandi


Kvika hefur fengið staðfesta grunnlýsingu vegna útgáfu skuldabréfa í erlendri mynt sem skráð verða í Euronext kauphöllinni í Dublin á Írlandi. Um er að ræða EMTN skuldabréfaramma (Euro Medium Term Note Programme) sem gefur Kviku færi á að gefa út skuldabréf að jafnvirði allt að 500 milljónum evra í ýmsum gjaldmiðlum og á föstum eða fljótandi vöxtum.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri:

„Aðgangur að erlendri lánsfjármögnun er mikilvægur þáttur í vexti og þróun Kviku og veitir félaginu færi á að dreifa fjármögnunaráhættu sinni og sækja fé á nýja markaði. Meginforsenda fyrir slíkum aðgangi er að rekstur og efnahagur félagsins sé traustur og hefur arðsamur rekstur og aukinn fjárhagslegur styrkur í kjölfar samruna Kviku, TM og Lykils fyrr á árinu styrkt stöðu Kviku  enn frekar. Með skráningu EMTN skuldabréfaramma á Írlandi stígur Kvika stórt skref á þeirri leið að tryggja sér aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum og er félagið nú reiðubúið til skuldabréfaútgáfu í erlendri mynt, en áætlað er að fyrsta útgáfa fari fram á fyrri helmingi næsta árs að því gefnu að markaðsaðstæður verði hagfelldar.“

Hægt er að nálgast lýsingu vegna skuldabréfarammans, sem dagsett er 21. desember 2021, á vef Kviku, https://www.kvika.is/fjarfestaupplysingar/skraningarskjal-og-utgafulysingar/

Nánari upplýsingar veitir Halldór Karl Högnason, forstöðumaður fjárstýringar í síma 540-3200.