Eimskip: Upplýsingar varðandi afkomu fjórða ársfjórðungs og ársins 2021


Samkvæmt stjórnendauppgjöri fyrir desember sem nú liggur fyrir  er EBITDA á fjórða ársfjórðungi 2021 hærri en sú spá sem birt var þann 20. desember 2021.

Áætlað er að EBITDA á fjórða ársfjórðungi verði um 31,6 milljónir evra samanborið við 14,9 milljónir evra á sama ársfjórðungi 2020.  Fyrri spá gerði ráð fyrir EBITDA á bilinu 26,7 til 29,7 milljónir evra. EBIT fjórðungsins verður um 17,5 milljónir evra samanborið við 3,2 milljónir evra á fjórða ársfjórðungi 2020.

Helstu ástæður fyrir hærri EBITDA nú en samkvæmt spánni í desember eru meira magn og betri framlegð en gert ráð fyrir í gámasiglingakerfinu, þá sérstaklega í útflutningi frá Íslandi. Þá var afkoman af starfseminni í Noregi og í alþjóðlegri flutningsmiðlun umfram væntingar. Heilt yfir voru óvenjulega mikil umsvif í mánuðinum, þá sérstaklega yfir hátíðarnar sem eru almennt rólegri tími.

Aðlöguð EBITDA fyrir árið 2021 er áætluð um 114,5 milljónir evra samanborið við 109,5 til 112,5 milljónir evra sem birt var í desember. Aðlagað EBIT er áætlað um 63 milljónir evra.

Eimskip vinnur enn að uppgjöri  ársins 2021 og geta niðurstöður tekið breytingum í uppgjörsferlinu og við endurskoðun ársreiknings.

Eimskip birtir uppgjör fjórða ársfjórðungs og ársins 2021 eftir lokun markaða fimmtudaginn 17. febrúar 2022.

Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs í síma 825-3399 eða á investors@eimskip.is.