Kvika banki hf.: Kvika gefur út skuldabréf erlendis í fyrsta sinn


Kvika banki hf. hefur lokið sínu fyrsta erlenda skuldabréfaútboði að upphæð 500 milljónir sænskra króna. Skuldabréfin bera fljótandi vexti, 280 punkta (2,8%) ofan á sænska þriggja mánaða millibankavexti (STIBOR), og eru til tveggja ára.  Fjöldi fjárfesta frá Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Lúxemborg og Sviss tóku þátt í útboðinu og var umframeftirspurn eftir bréfunum. Stefnt er að skráningu skuldabréfanna í Kauphöllinni á Írlandi fyrir lok janúar.

Skuldabréfin eru gefin út undir Euro Medium Term Note (EMTN) útgáfuramma bankans sem undirritaður var í desember 2021, en hann gefur Kviku færi á að gefa út að jafnvirði 500 milljónum evra í mismunandi myntum á föstum og fljótandi vöxtum.

Umsjónaraðili útboðsins var Swedbank í Stokkhólmi.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku:

„Erlend skuldabréfaútgáfa er rökrétt skref fyrir Kviku og rennir frekari stoðum undir fjölbreytni í fjármögnun bankans. Rekstur Kviku er öflugur og eiginfjár-, fjármögnunar- og lausafjárhlutföll sterk. Þátttaka erlendra fjárfesta er mikil traustyfirlýsing á þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað og framtíðarmarkmiðum okkar.

Það hefur verið hvetjandi að upplifa þau jákvæðu viðbrögð sem félagið hefur fengið frá fjölbreyttum hópi erlendra fjárfesta við fyrstu kynningum félagsins sem útgefanda á erlendum mörkuðum. Við munum halda áfram að taka skref til þess að styrkja stöðu Kviku sem útgefanda erlendis og hlökkum við til að byggja upp samband Kviku við erlenda fjárfesta.“

Nánari upplýsingar veitir Halldór Karl Högnason, forstöðumaður fjárstýringar í síma 540-3200.