Festi hf.: Ársuppgjör 2021


Hagnaður 1.354 milljónir króna á 4. ársfjórðungi 2021

Helstu niðurstöður

  • Framlegð af vöru- og þjónustusölu nam 6.522 millj. kr. samanborið við 5.372 millj. kr. á 4F 2020, sem samsvarar 21,4% hækkun milli ára.
  • EBITDA nam 2.809 millj. kr. samanborið við 1.746 millj. kr. á 4F 2020, sem jafngildir 60,8% hækkun.
  • Framlegð af vörusölu var 24,7% á 4F 2021 en framlegðin var 23,4% í sama fjórðungi árið áður.
  • Hagnaður af sölu eigna nam 276 millj. kr. á 4F 2021.
  • Hagnaður á 4F 2021 nam 1.354 millj. kr. samanborið við 526 millj. kr. á 4F 2020.
  • Eigið fé í lok árs 2021 nam 33.910 millj. kr. og eiginfjárhlutfall 39,4% samanborið við 35,7% í lok árs 2020.
  • Nettó vaxtaberandi skuldir án leiguskuldbindinga voru 23.309 millj. kr. í lok ársins samanborið við 29.986 millj. kr. í lok 2020 sem er lækkun um 6.677 millj. kr. á milli ára.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi:

„Rekstur Festi gekk vel á nýliðnu rekstrarári en árið markaði viss tímamót þar sem öll fyrirtæki samstæðunnar skiluðu sinni bestu afkomu frá upphafi.“

Verkefni rekstrarársins voru fjölmörg og bera þar hæst kolefnisbindingarverkefni Festi, stafræn framþróun félaganna með nýjum þjónustu- og afgreiðslulausnum, þátttaka N1 í orkuskiptum í samgöngum með nýju félagi og innleiðing velferðarpakka samstæðunnar sem er ætlað að stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu starfsfólksins.

Kolefnisbindingarverkefni Festi – kolefnisjafna alla losun félaga innan samstæðunnar
Meðal stórra verkefna innan Festi var skráning fyrsta kolefnisbindingarverkefnisins í Loftslagsskrá Íslands samkvæmt kröfum Skógarkolefnis sem Skógræktin hefur verið með í þróun. Festi steig því stórt og mikilvægt skref í átt að aukinni sjálfbærni og ábyrgri kolefnisjöfnun. Verkefnið verður staðfest og vottað af óháðum aðila og hefur nú verið forskráð í Loftslagsskrá. Festi mun því kolefnisjafna með ábyrgum hætti alla losun félaga innan samstæðunnar sem ekki er hægt að fyrirbyggja. Félagið áætlar að gróðursetja yfir 500 þúsund trjáplöntur með nýskógrækt í þessu fyrsta verkefni á næstu þremur árum. Sömuleiðis gerum við ráð fyrir að á næstu 50 árum muni kolefnisbinding Festi nema um 90.000 tonnum af CO2 sem er meira en öll væntanleg losun vegna starfsemi Festi og rekstrarfélaga á sama tímabili. Gróðursett verður á 250 hektara landi í eigu Festi við Fjarðarhorn í Hrútafirði og hefst gróðursetningin vorið 2022. Umhverfis- og sjálfbærnimál eru sífellt að verða veigameiri í starfsemi félaga og hlökkum við til að hefja þessa mikilvægu vegferð í átt að aukinni sjálfbærni.

Stafrænar þjónustuleiðir – til að einfalda viðskiptavinum okkar lífið
Rekstrarárið litaðist einnig af mikilli áherslu á stafræna þróun innan félagsins þar sem markmiðið er að einfalda viðskiptavinum lífið. Fyrst ber að nefna góðar viðtökur á netverslunum Krónunnar, ELKO og N1 og kom samstarf N1 við sendingarþjónustuna Dropp sér afar vel á árinu samhliða aukinni þörf á sendingarlausnum. Ný afgreiðslulausn Krónunnar í gegnum Snjallverslunarappið, Skannað og skundað, var einnig ýtt úr vör á rekstrarárinu. Með lausninni geta viðskiptavinir skannað vörur beint í körfu eða poka með eigin síma og greitt í appinu, án þess að koma við á kassa. Lausninni hefur verið gríðarlega vel tekið í Krónunni í Lindum, Krónunni Akrabraut í Garðabæ og í Krónunni Granda og stefnir Krónan að því lausnin verði aðgengileg í öllum verslunum á komandi rekstrarári.

N1 Rafmagn – þátttaka okkar í orkuskiptum í samgöngum
Í takt við auknar áherslur á orkuskipti í samgöngum hefur N1 hugað að aðgerðum sem stuðla að áframhaldandi rekstri félagsins í kjölfar breyttra áherslna olíufyrirtækja. Í lok rekstrarársins var tilkynnt um nafnabreytingu Íslenskrar Orkumiðlunar, sem er í eigu N1 og heitir nú N1 Rafmagn. Félagið býður upp á samkeppnishæf raforkuverð til heimila og fyrirtækja og sinnir einnig rafhleðsluneti N1 sem er sífellt að þéttast. Á rekstrarárinu opnaði stærsti rafhleðslugarður landsins við þjónustustöð N1 í Staðarskála þar sem markmiðið er að auka þjónustu við rafbílaeigendur, auðvelda þeim ferðalagið á rafbílum og stuðla að uppbyggingu innviða vegna orkuskipta. Aukin áhersla N1 á rafhleðslur við þjónustustöðvar er liður í því að auka framboð á endurnýjanlegum og grænum orkugjöfum í takt við orkustefnu félagsins til framtíðar.  

Liðsheild og vellíðan skiptir sköpum – velferðapakki fyrir starfsfólk
Til þess að ná árangri þarf sterka og samhenta liðsheild og á starfsfólk okkar kærar þakkir skildar fyrir sitt framlag. Starfsfólk samstæðunnar á stóran þátt í góðum árangri á nýliðnu rekstrarári sem tryggði framúrskarandi þjónustu og góða upplifun viðskiptavina, þrátt fyrir krefjandi aðstæður á tímum heimsfaraldurs.

Vellíðan starfsfólksins skiptir sköpum og er markmið okkar að því líði vel, bæði í starfi og utan þess. Á rekstrarárinu settum við saman svokallaðan velferðarpakka Festi og rekstrarfélaga sem er ætlað að stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu starfsfólks. Innihald velferðarpakkans er margþætt og standa starfsfólki til boða hinir ýmsu styrkir, s.s. íþróttastyrkir, sálfræðiaðstoð eða velferðarþjónusta á borð við lífsstílsráðgjöf, ráðgjöf sjúkraþjálfara, félagsráðgjafa eða næringarfræðings, markþjálfun og ráðgjöf sem snýr að hjónabandi, uppeldi, fjölskyldu og einelti. Við hvetjum starfsfólkið til að nýta sér velferðarpakkann í hvívetna og hefur honum verið afar vel tekið.

Bjart fram undan
Félagið hefur mikið upp á að bjóða og hefur alla burði til að takast á við þær áskoranir sem það stendur nú frammi fyrir í kjölfar kórónuveirufaldursins og annarra utanaðkomandi þátta. Félagið hefur ekki farið varhluta af aukinni verðbólgu, verðhækkunum á innfluttum og innlendum afurðum og mögulegum vöruskorti í einhverju magni. Fjárhagurinn stendur þó sterkur, horfur í rekstrinum eru áfram mjög góðar og er félagið vel í stakk búið til að takast á við verkefnin sem fram undan eru.

Mörg spennandi verkefni bíða okkar á komandi misserum, m.a. opnun nýrra verslana, bæði veglegra verslana ELKO og Krónunnar í Skeifunni og nýrrar verslana Krónunnar sem munu opna á næstu mánuðum í Borgartúni og næsta haust á Akureyri. Uppbygging fyrir Bílaþjónustu N1 í Keflavík fer af stað á þessu ári og á næstu misserum verður farið af stað í uppbyggingu hjá N1 á Akranesi þar sem ný þjónustustöð verður byggð og aðstaða fyrir Bílaþjónustu N1. Mikil áhersla verður lögð á stafræna þróun á innri ferlum félagsins á núverandi rekstrarári sem eiga að stuðla að hagræðingu í rekstri og auðvelda samskipti milli rekstrareininga. Innleiðing á nýrri samskipta- og fræðslulausn fyrir starfsfólk, sem verður aðgengileg bæði í appi og á vef, hefur staðið yfir í þó nokkurn tíma. Lausnin verður sérsniðin að hverju og einu rekstrarfélagi þar sem markmiðið er að huga að skilvirkri þjálfun og fræðslu starfsfólks, stuðla að tvíhliða samskiptum og auka upplýsingagjöf innan félagsins. Appið var tekið í gagnið í byrjun nýs rekstrarárs og verður spennandi að fylgjast með þróun og viðtökum á lausninni innan félagsins. Að sama skapi mun nýtt greiðsluapp líta dagsins ljós á næstu mánuðum þar sem m.a. verður hægt að greiða fyrir hleðslu rafbíla á rafhleðslustöðvum félagsins og er lausninni ætlað að gjörbylta þjónustu við rafbílaeigendur.

Mikil tækifæri liggja í rekstrinum á komandi rekstrarári. Festi og rekstrarfélögin N1, Krónan, ELKO og Bakkinn munu halda áfram að sinna þörfum og óskum viðskiptavina á framúrskarandi hátt þar sem virkt samtal skiptir sköpum“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi.

Nánari upplýsingar er að finna í viðhengjum.

ViðhengiAttachments

Festi hf - Afkomutilkynning 4F 2021 Festi hf - Ársreikningur 2021 - signed 5493005OLOCYXGTC7E83-2021-12-31-en