Síminn hf. - Ár breytinga – traustur rekstur


Helstu niðurstöður úr rekstri á 4F 2021

Í ársreikningi samstæðu Símans fyrir árið 2021 er Míla meðhöndluð sem aflögð starfsemi. Hér að neðan er fjallað um rekstur samstæðu Símans að Mílu meðtalinni.

  • Tekjur á fjórða ársfjórðungi (4F) 2021 námu 6.700 m.kr. samanborið við 6.703 m.kr. á sama tímabili 2020.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, nam 2.532 m.kr. á 4F 2021 samanborið við 2.713 m.kr. á sama tímabili 2020 og lækkar því um 181 m.kr. eða 6,7% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 37,8% fyrir fjórða ársfjórðung 2021 en var 40,5% á sama tímabili 2020. Rekstrarhagnaður EBIT nam 918 m.kr. á 4F 2021 samanborið við 1.207 m.kr. á sama tímabili 2020. Án 300 m.kr. lækkunar stjórnvaldssektar á 4F 2020 var EBITDA tímabilsins 2.413 m.kr. og EBIT 907 m.kr.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 279 m.kr. á 4F 2021 en voru 144 m.kr. á sama tímabili 2020. Fjármagnsgjöld námu 360 m.kr., fjármunatekjur voru 87 m.kr. og gengistap nam 6 m.kr.
  • Hagnaður á 4F 2021 nam 654 m.kr. samanborið við 1.055 m.kr. á sama tímabili 2020. Án lækkunar stjórnvaldssektar á 4F 2020 var hagnaður tímabilsins 755 m.kr.
  • Vaxtaberandi skuldir samstæðu án Mílu að leiguskuldbindingum meðtöldum námu 8,3 ma.kr. í árslok 2021 en voru 21,5 ma.kr. í árslok 2020. Hreinar vaxtaberandi skuldir samstæðu án Mílu að leiguskuldbindingum meðtöldum voru 4,8 ma.kr. í árslok 2021 samanborið við 20,8 ma.kr. í árslok 2020.
  • Eiginfjárhlutfall Símans var 44,6% í lok árs 2021 og eigið fé 31,1 ma.kr.

Orri Hauksson, forstjóri:

„Árið 2021 var sögulegt hjá Símanum. Samningurinn um sölu Mílu markar einar stærstu breytingar sem gerðar hafa verið á samstæðunni í yfir aldar sögu hennar. Á árinu var einnig gengið endanlega frá sölu næststærsta dótturfélags Símans, upplýsingatæknifyrirtækisins Sensa.

Á sama tíma og uppstokkun á samstæðunni fór fram gekk grunnreksturinn með prýði, bæði hjá Símanum sjálfum og hjá samstæðunni í heild. Hagnaður samstæðunnar eykst milli ára og nemur tæpum 3 milljörðum króna af þeirri starfsemi sem var innan samstæðunnar um síðastliðin áramót, það er með Mílu meðtalinni en án Sensa. Að teknu tilliti til söluhagnaðar af Sensa var hagnaðurinn yfir 5,2 milljarðar króna. Hluti af söluandvirði Sensa voru hlutabréf í Crayon sem hafa nú öll verið seld. Sökum jákvæðrar gengisþróunar Crayon reyndist endanlegur hagnaður af sölu Sensa 2.180 milljónir króna eða um 120 milljónum króna hærri en áætlað var við frágang viðskiptanna. EBITDA samstæðunnar hefur aldrei verið hærri, eða 10,6 milljarðar króna. Tekjur aukast myndarlega í farsíma en lítillega í gagnaflutningi og sjónvarpi.

Afkomubatinn í rekstrinum í fyrra er vegna lægri kostnaðar, sem aftur skýrist að mestu af hagræðingaraðgerðum sem ráðist var í árið 2020. Dróg með þeim úr launakostnaði en einnig komst útvistun á lykilþáttum upplýsingatækni Símans að fullu til framkvæmda árið 2021. Sú aðgerð færði kostnað milli rekstrarliða og dróg úr útgjöldum í heild. Breyting þessi hefur þann megintilgang að skila auknum viðbragðshraða til lengri tíma og bættri þjónustugetu til viðskiptavina. Heimsfaraldurinn hafði áfram greinileg áhrif til lækkunar á bæði tekjum og gjöldum á árinu. Síminn þáði enga opinbera styrki eins og fjölmiðlastyrki, hlutabótaleið eða önnur opinber framlög sem stofnað var til eftir að faraldurinn kom fram.

Eftir nokkurn aðdraganda náðust samningar um sölu á Mílu í október síðastliðnum. Kaupandinn er innviðasjóður franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian og hefur fyrirtækið leitað til íslenskra lífeyrissjóða um að vera eigendur minnihluta hlutafjár Mílu á móti sér. Heildarvirði Mílu í viðskiptunum er 78 milljarðar króna og áætlaður söluhagnaður Símans 46 milljarðar króna að teknu tilliti til kostnaðar vegna viðskiptanna. Þannig er salan einkar hagfelld og hámarkar virði þessarar eignar fyrir Símann. Gerður var heildsölusamningur á milli Símans og Mílu til 20 ára sem tekur gildi við afhendingu félagsins. Með langtímasamningi félaganna tryggir Síminn sér aðgang að þeim innviðum sem nauðsynlegir eru til að veita áfram gæðaþjónustu til viðskiptavina sinna. Breytt eignarhald Mílu hefur nær engin áhrif á viðskiptin milli félaganna, þau verða áfram á sama grunni og frá stofnun Mílu árið 2007, byggð á armslengdarsjónarmiðum. Rekstur Símans verður því ekki fyrir áhrifum umfram það sem hefðbundið er í efnahag og umsýslu þegar dótturfélög eru seld. Eins er skýrt að leiguskuldbindingar myndast ekki í efnahagsreikningi Símans í kjölfar viðskiptanna.

Efnahagur Mílu er í ársreikningi samstæðunnar 2021 flokkaður sem aflögð starfsemi og eignir til sölu. Sama á við um rekstur Mílu. Að öðru leyti eru engin áhrif í reikningnum af sölu félagsins, til að mynda er söluhagnaður vegna viðskiptanna ekki kominn fram í reikningnum. Viðskiptin eru til meðferðar Samkeppniseftirlitsins og þann 9. febrúar síðastliðinn tilkynnti stofnunin að hún hefði móttekið samrunatilkynningu sem hún teldi fullnægjandi að efni. Frestur stofnunarinnar til að rýna viðskiptin er því hafinn og niðurstaða ætti að liggja fyrir um mitt ár.

Samstæðan var endurfjármögnuð í aðdraganda sölu Mílu og um 8 milljarðar króna greiddar til hluthafa með niðurfærslu hlutafjár. Móðurfélagið er þrátt fyrir það hóflega skuldsett og enn fjármagnað með hlutafé í mun meiri mæli en eðlilegt er til lengri tíma. Stefnt er á að færa fjármagnsskipan Símans í hagkvæmari stöðu eftir að sölunni á Mílu hefur verið lokið. Fram að því verður fjárfestingum í innri kerfum og ferlum félagsins hraðað og haldið áfram að kaupa eigin bréf. Samhliða er aukinn þungi í 5G uppbyggingu á vegum beggja félaga, Síminn í kjarnakerfi og Míla í sendakerfi. 5G kerfið dekkaði í lok árs stærstan hluta höfuðborgarsvæðisins og var þá gerður 5 ára samningur við sænska tæknirisann Ericsson um að hraða landsdekkandi uppbyggingu þessa örugga framtíðarkerfis okkar.

Á síðasta ári varð Síminn einnig stærsti endursali ljósleiðaraheimtauga landsins og gat í fyrsta skipti nýtt öll net landsins til að bjóða þjónustu sína til viðskiptavina. Míla hefur einnig aukið fjárfestingar sínar í ljósleiðaravæðingu landsins, frá og með því að samningur um sölu Mílu var undirritaður. Þá var samningur um sýningarrétt á ensku úrvalsdeildinni endurnýjaður til ársins 2025 og samstarf framlengt við innlenda og erlenda efnisframleiðendur. Þannig er búið að tryggja gæðefni í sjónvarpsþjónustu Símans til næstu ára.

Árið í ár mun markast af nýju upphafi Símans sem sjálfstæðs þjónustufélags með innan við 300 starfsmenn. Félagið byggir nú á léttum efnahag og sveigjanlegum rekstri, með framúrskarandi birgja og metnaðarfullt þjónustuframboð í fjarskiptatækni, sjónvarpi og fjártækni. Frekari tækifæri til tekjuvaxtar félagsins eru jafnframt til skoðunar.“


Kynningarfundur 16. febrúar 2022

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn miðvikudaginn 16. febrúar 2022 kl. 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 25, Reykjavík. Fjárfestar og markaðsaðilar eru sérstaklega boðnir velkomnir á fundinn. Á fundinum munu Orri Hauksson forstjóri og Óskar Hauksson fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins og svara fyrirspurnum. Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast í fréttakerfi Nasdaq Iceland og á heimasíðu Símans https://www.siminn.is/umsimann/uppgjor.

Jafnframt verður hægt að fylgjast með fundinum í netstreymi á vefslóðinni:
https://www.siminn.is/fjarfestakynning.

Þeir sem vilja bera upp spurningar geta sent þær á fjarfestatengsl@siminn.is og verður þeim svarað í lok fundarins.


Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550 6003 (orri@siminn.is)
Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans, s. 550 6003 (oskarh@siminn.is)


Viðhengi



Attachments

Síminn hf  - Afkomutilkynning 4F 2021 Síminn hf. - Fjárfestakynning 4F 2021 Síminn hf. - Ársreikningur samstæðu 2021 254900X9GQZM6UGXYF10-2021-12-31-is 254900X9GQZM6UGXYF10-2021-12-31-is.zip-viewer