Kvika banki hf.: Kaup á Ortus Secured Finance frágengin


Kvika banki hf. („Kvika”) hefur, í gegnum dótturfélag sitt Kvika Securities Ltd. („KSL“) í Bretlandi, gengið frá kaupum á meirihluta hlutafjár í Ortus Secured Finance Ltd. („Ortus”). Eftir kaupin mun KSL eiga tæplega 80% hlutafjár í Ortus en KSL eignaðist 15% hlut í félaginu árið 2018.

Ortus er breskt útlánafyrirtæki sem sérhæfir sig í veitingu fasteignaveðtryggðra lána til viðskiptavina sinna í Bretlandi. Félagið var stofnað árið 2013 og stýrir í dag lánasafni að jafnvirði um 20 milljarða króna, en um 13 milljarðar króna að jafnvirði eru á efnahagsreikningi Ortus. Höfuðstöðvar félagsins eru í London en einnig er Ortus með starfsemi í Belfast á Norður Írlandi og í Glasgow í Skotlandi. Frá stofnun félagsins hefur Ortus veitt yfir 85 milljarða króna að jafnvirði af lánum til viðskiptavina sinna og hefur á þessum tíma aldrei orðið fyrir tapi á höfuðstóli lána sem það hefur veitt.

Í framhaldi af kaupunum verður Ortus mikilvægur hluti af starfsemi KSL í Bretlandi. Með kaupunum stækkar efnahagsreikningur samstæðu Kviku um rúmlega 7%. Byggt á bráðabirgðauppgjöri Ortus fyrir árið 2021 nam hagnaður félagsins fyrir skatta að jafnvirði um 700 milljóna króna. Á árinu 2022 er gert ráð fyrir að Ortus muni skila hagnaði fyrir skatta að jafnvirði um 900 milljóna króna.

Heildarvirði hlutafjár félagsins í kaupunum er að jafnvirði 6 milljarða króna og verður greitt fyrir hlutina í reiðufé. Meðal sjö seljenda eru Stoðir hf., sem selja allan 30% hlut sinn, og stjórnendur Ortus. Lykilstjórnendur munu þó áfram eiga rúmlega 20% hlut í félaginu og þeir munu jafnframt sinna daglegum rekstri þess á komandi árum ásamt reyndu starfsliði félagsins. KSL mun eignast félagið að fullu með kaupum á frekara hlutafé af stjórnendum á næstu fjórum árum. Verðið í þeim kaupum mun byggja á rekstrarárangri félagsins á tímabilinu.

Kaupin eru frágengin í framhaldi af umfangsmikilli áreiðanleikakönnun á fjármálum og almennri starfsemi Ortus og hefur hún staðið yfir frá því að viljayfirlýsing (e. Heads of Terms) var undirrituð í lok október 2021. Til viðbótar áreiðanleikakönnuninni réð KSL Grant Thornton UK LLP til að framkvæma óháð sanngirnismat á verðmati félagsins í viðskiptunum. Grant Thornton hefur skilað skýrslu (e. Fairness Opinion) þar sem þeir staðfesta að verðmatið sé að þeirra mati sanngjarnt og eðlilegt í viðskiptum milli óháðra aðila. Ákveðin samlegðaráhrif sem gert er ráð fyrir að náist fram með kaupunum voru ekki höfð til hliðsjónar í verðmatinu.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka hf.:

„Kaupin á Ortus eru í samræmi við stefnu Kviku um að nýta aukinn fjárhagslegan styrk í framhaldi af sameiningunni við TM til að halda áfram að byggja upp starfsemi félagsins utan Íslands og ná þannig fram áhættudreifingu í starfsemi sinni.  Í tengslum við þetta höfum við áður tilkynnt um það markmið okkar að starfsemi Kviku í Bretlandi muni skila að lágmarki 20% af hagnaði samstæðunnar innan þriggja ára. Kaupin á Ortus eru mikilvægt skref í átt að því að Kvika nái því markmiði.  Frá því að KSL eignaðist 15% hlut í Ortus hefur árangur félagsins verið góður. Mikil tækifæri felast í áframhaldandi uppbyggingu Ortus, t.d. með því að ná fram hagræði í fjármagnskostnaði félagsins.”

Richard Beenstock, forstjóri Ortus Secured Finance Ltd.:

„Í framhaldi af því að hafa starfað mjög náið með Kviku og KSL til margra ára erum við mjög ánægð með að ganga nú frá þessum viðskiptum sem styrkja enn frekar sambandið við bankann.  Kvika hefur verið áreiðanlegur samstarfsaðili og stutt við góðan árangur í uppbyggingu Ortus undanfarin ár.  Kaup KSL á meirihluta í Ortus er staðfesting á þeirri miklu vinnu og góða árangri sem hið frábæra starfsmannateymi Ortus hefur náð og við erum öll spennt fyrir því að vinna að áframhaldandi vexti félagsins sem hluti af samstæðu Kviku banka.”