Ársreikningur RARIK fyrir árið 2021


Hagnaður RARIK rúmir tveir milljarðar

Samkvæmt rekstrarreikningi nam hagnaður ársins 2.110 milljónum króna sem er rúmlega 18% hækkun frá árinu á undan, þegar hagnaður ársins var 1.781 milljón króna. Reiknuð áhrif hlutdeildarfélagsins Landsnets voru 1.018 milljónir króna en þau voru 832 milljónir á árinu 2020. Heildarhagnaður að teknu tilliti til þýðingarmunar vegna hlutdeildarfélags og áhrifa af endurmati fastafjármuna var 4.240 milljónir króna.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 5.649 milljónir króna eða 33,7% af veltu ársins, samanborið við 32,4% á árinu 2020. Handbært fé frá rekstri nam 4.570 milljónum króna.

Rekstrartekjur hækkuðu um tæp 3% frá árinu 2020 og námu 16.748 milljónum króna og rekstrargjöld hækkuðu einnig  á milli ára um tæp 3% og námu 13.830 milljónum króna.

Rekstrarhagnaður af starfsemi RARIK fyrir fjármagnsliði (EBIT) á árinu 2021 nam 2.918 milljónum króna sem er 4% hækkun frá fyrra ári. Fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur námu 1.553 milljónum króna, en á árinu 2020 voru þau 1.612 milljónum króna.

Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir RARIK í árslok 83.469 milljónir króna og hækkuðu um 4.615 milljónir króna á milli ára. Heildarskuldir námu 29.817 milljónum króna og hækkuðu um 685 milljónir króna frá fyrra ári. Eigið fé var 53.652 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall því 64,3% samanborið við 63,1% í árslok 2020. Fjárfestingar ársins að frádregnu söluandvirði seldra rekstrarfjármuna námu 5.310 milljónum króna, sem er 2.165 milljónum króna minna en árið á undan.

Tekjur samstæðunnar hækkuðu á milli ára vegna aukinna tekna af dreifingu en samdráttur varð í  raforkusölu. Tekjur af tengigjöldum voru meiri en árið áður. 

Kórónuveirufaraldurinn hafði áhrif á starfsemi samstæðunnar á árinu einkum hvað varðar vinnutilhögun starfsmanna. Félagið metur það svo að fjárhagsleg áhrif af heimsfaraldrinum hafi þó ekki verið veruleg.

Jarðhitaveita í Hornafirði var tekin í notkun í árslok 2020. Hún leysti af hólmi fjarvarmaveitu á Höfn sem þar hafði verið rekin frá árinu 1980. Á árinu 2021 var lokið við lagningu dreifikerfis í þann hluta bæjarins sem áður var með beina rafhitun. Nú stendur öllum íbúum á Höfn til boða að tengjast hitaveitunni. Á árinu var áfram unnið að endurnýjun dreifikerfisins með lagningu jarðstrengja í samræmi við langtímaáætlun fyrirtækisins, í árslok 2021 var hlutfall jarðstrengja í dreifikerfi RARIK komið í 72%.

Stjórn RARIK leggur til við aðalfund að greiddar verði 310 milljónir króna í arð til eiganda fyrirtækisins, sem er Ríkissjóður Íslands.

Samstæðuársreikningur RARIK ohf. er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.

Horfur í rekstri RARIK á árinu 2022 góðar. Gert er ráð fyrir að hagnaður ársins af reglulegri starfsemi samstæðunnar verði svipaður og á árinu 2021. Gert er ráð fyrir að fjárfestingar ársins 2022 verði heldur hærri en á árinu 2021.

Helstu stærðir samstæðureiknings RARIK, allar fjárhæðir í milljónum króna

 20212020201920182017201620152014
         
Rekstartekjur 16.74816.26816.77716.63714.88614.67013.25212.521
Rekstrargjöld 13.83013.47013.27613.02211.88411.39910.7559.513
Rekstrarhagnaður2.9182.7983.5013.6153.0023.2712.4973.008
Hrein fjármagnsgjöld-1.553 -1.612 -1.059 -1.274 -706 -293-850 -748
Áhrif hlutdeildarfélags1.018832770909670-344903847
Hagnaður fyrir skatta2.3832.0183.2123.2502.9662.6342.5503.107
Tekjuskattur-273 -237 -486 -469 -459 -594-330 -446
Hagnaður2.1101.7812.7262.7812.5072.0402.2202.661
         
Eignir samtals 83.46978.85468.30665.95358.46557.72257.75148.536
Eigið fé53.65249.72243.92641.13237.73036.13435.62329.495
Skuldir29.81729.13224.38024.82120.73521.58822.12819.041
         
Handbært fé frá rekstri4.5704.3034.3073.7553.9523.4873.5873.837
Greidd vaxtagjöld740689734667625727741649
         
EBITDA5.6495.2715.7405.5694.7675.0664.1514.719
Vaxtaþekja7,637,657,828,357,636,975,607,27
Eiginfjárhlutfall64,3%63,1%64,3%62,4%64,5%62,6%61,7%60,8%
         
EBITDA/Velta33,7%32,4%34,2%33,5%32,0%34,5%31,3%37,7%



Ársreikningur RARIK 2021 var samþykktur á fundi stjórnar þann 25. febrúar, 2022 og heimilaði stjórn birtingu hans í Kauphöll Íslands.

Nánari upplýsingar veitir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK í síma 528 9000.

Viðhengi



Attachments

Samstæðuársreikningur RARIK ohf 2021 Fréttatilkynning um samstæðuársreikning RARIK 2021