Kvika banki hf.: Breytingar á framkvæmdastjórn


Magnús Ingi Einarsson, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra bankasviðs Kviku banka hf. („Kvika“ eða „bankinn“) undanfarin ár, hefur sagt starfi sínu lausu og hættir störfum á næstu dögum.

Ólöf Jónsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra rekstrar- og þróunarsviðs Kviku frá apríl 2021, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri bankasviðs.

Ólöf hefur starfað í um 15 ár á fjármálamarkaði. Hún hóf störf hjá Kviku árið 2017, fyrst sem forstöðumaður stefnumótunar og rekstrarstjórnunar og síðar sem forstöðumaður fjártækni. Í apríl 2020 tók hún við starfi framkvæmdastjóra Lykils fjármögnunar hf. og gegndi hún því starfi fram að samruna Kviku, Lykils og TM í apríl 2021, þegar hún tók sæti í framkvæmdastjórn Kviku.

Anna Rut Ágústsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri rekstrar- og þróunarsviðs bankans, en hún hefur gegnt starfi forstöðumanns fjármála- og rekstrarsviðs hjá Kviku eignastýringu hf., dótturfélagi Kviku, frá ársbyrjun 2020. Anna Rut hefur starfað hjá samstæðu Kviku og forverum frá árinu 2007, m.a. sem forstöðumaður útlánaáhættu hjá Straumi fjárfestingarbanka hf. á árunum 2012 til 2015.

Samhliða þessum breytingum mun Thomas Skov Jenssen sem gegnt hefur starfi forstöðumanns áhættustýringar taka sæti í framkvæmdastjórn Kviku. Thomas hefur verið forstöðumaður áhættustýringar Kviku og áður MP banka hf. frá árinu 2007.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri:

"Magnús Ingi hefur starfað hjá bankanum og forverum hans frá árinu 2006, setið í framkvæmdastjórn frá árinu 2015 og gegnt lykilhlutverki í að byggja upp það öfluga fyrirtæki sem Kvika er í dag.

Ég hef starfað með Magnúsi frá því ég hóf störf hjá Kviku fyrir fimm árum. Magnús tók einstaklega vel á móti okkur Ármanni Þorvaldssyni, þáverandi forstjóra og átti mikinn þátt í því að við komumst fljótt inní störf okkar. Magnús hefur verið góður samstarfsfélagi. Mig langar að þakka honum fyrir góð störf  og óska honum velfarnaðar í nýjum verkefnum."