REKSTUR MOSFELLSBÆJAR Á ÁRINU 2021 GEKK VEL


13. apríl 2022


Afkoma Mosfellsbæjar árið 2021 er á heildina litið í samræmi við áætlun ársins. Almennur rekstur gekk vel og var í samræmi við þau markmið um þjónustu við íbúa sem sett voru. Skatttekjur voru umtalsvert meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og þar vega útsvarstekjur mest sem endurspeglar hraðari viðsnúning atvinnulífsins í kjölfar heimsfaraldursins. Hækkun reiknaðrar lífeyrisskuldbindingar og áhrif verðlagshækkana á afkomu sveitarfélagsins eru hins vegar meiri en gert var ráð fyrir í áætlun ársins og draga úr jákvæðum áhrifum á rekstrarniðurstöðu ársins.  

Þetta kemur fram í ársreikningi Mosfellsbæjar fyrir árið 2021 sem var lagður fram á fundi bæjarráðs í dag, miðvikudaginn 13. apríl.

Veltufé frá rekstri var jákvætt um 1.131 milljónir sem er 645 milljónum betri niðurstaða en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.  Þetta gerði það að verkum að lántaka varð minni en áætlað þar sem reksturinn skilaði meiri fjármunum til framkvæmda.  Að teknu tilliti til reiknaðra liða eins og hækkun lífeyrisskuldbindinga og verðbóta varð rekstrarniðurstaða ársins neikvæð um 562 milljónir sem er betri afkoma en í fjárhagsáætlun ársins.

Rekstur málaflokka gekk vel og er í góðu samræmi við fjárhagsáætlun. Þá var töluvert framkvæmt á árinu bæði til þess að geta tekið við fjölgun íbúa og til að byggja frekar upp innviði sveitarfélagsins. 

Helstu tölur um rekstur ársins 2021
Tekjur ársins námu alls um 14.436 milljónum, launakostnaður 6.952 milljónum, hækkun lífeyrisskuldbindinga 527 milljónir og annar rekstrarkostnaður var 6.010 milljónir og nemur framlegð því 946 milljónum. Veltufé frá rekstri er 1.131 milljónir eða 7,8% af tekjum.

Eigið fé í árslok nam því 6.625 milljónum og eiginfjárhlutfallið er 25,4%. Skuldaviðmið er 102,1% og því vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum

Íbúum í Mosfellsbæ fjölgaði um 458 á árinu 2021 en traustur daglegur rekstur og sterk fjárhagsstaða þrátt fyrir tímabundin ytri áföll gera samfélaginu kleift að veita íbúum góða þjónustu.

Framkvæmdir á vegum Mosfellsbæjar hafa á undanförnum árum verið miklar enda sveitarfélagið í góðum vexti. Samtals var framkvæmda- og uppbyggingakostnaður á árinu 2021 um 2.500 milljónir og má þar nefna byggingu Helgafellsskóla, uppbygging íþróttamannvirkja, endurbætur á skólahúsnæði, endurgerð Hlégarðs og gatnaframkvæmdir.

Íbúar Mosfellsbæjar voru 13.023 þann 1. desember 2021 og nemur fjölgunin 3,6% á milli ára. Mosfellsbær er sem fyrr sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins og þar störfuðu 878 starfsmenn í 711 stöðugildum í árslok 2021.

Rekstur málaflokka

Rekstur málaflokka gekk vel og er í góðu samræmi við fjárhagsáætlun. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða námu 13.490 milljónum.

Fræðslumál eru umfangsmesti málaflokkurinn og til hans var varið 6.674 milljónum eða 56,4% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 2.424 milljónum og eru þar meðtalin framlög vegna málefna fatlaðs fólks. Loks eru íþrótta- og tómstundamál þriðja umfangsmesta verkefni bæjarins og til þeirra var ráðstafað um 1.345 milljónum.

Ársreikningurinn verður tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 20. apríl 2022 og gert er ráð fyrir því að seinni umræða í bæjarstjórn fari fram þann 4. maí.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar:

„Ársreikningur fyrir árið 2021 varpar ljósi á sterka stöðu Mosfellsbæjar til að mæta þeirri fjárhagslegu ágjöf sem heimsfaraldurinn olli. Við hjá Mosfellsbæ viljum vera til fyrirmyndar varðandi daglegan rekstur og framþróun starfseminnar. Starfsmenn leggja áherslu á að veita góða þjónustu og eru meðvitaðir um mikilvægi þess að fylgja áætlunum. Skatttekjur jukust á árinu umfram áætlanir sem endurspeglar hraðari viðsnúning atvinnulífsins í kjölfar heimsfaraldursins. Á móti vegur að tryggingastærðfræðileg úttekt leiðir til þess að lífeyrisskuldbindingar hækka sem hefur áhrif á niðurstöður ársins. Mest um vert er að okkur hefur í sameiningu tekist að bæta okkar þjónustu enn frekar og þar skiptir samvinna starfsfólks og kjörinna fulltrúa höfuð máli. Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólki Mosfellsbæjar, kjörnum fulltrúum og nefndarfólki fyrir þeirra þátt í þeim árangri sem við höfum náð og brýna þau til góðra verka á næstu misserum.“

Nánari upplýsingar veita:

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í síma 525 6700 og Arnar Jónsson, forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar í síma 840-1244 eða í gegnum netfangið arnar@mos.is

Viðhengi



Attachments

Ársreikningur 2021 Mosfellsbær - vísað til fyrri umræðu 20.04.2022