Kvika banki hf.: Moody‘s Investors Service veitir Kviku lánshæfiseinkunnirnar Baa2 með stöðugum horfum


Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Moody's Investors Service („Moody‘s“) hefur í fyrsta sinn úthlutað Kviku banka hf. („Kvika“) Baa2 langtíma- og Prime-2 skammtíma- lánshæfiseinkunnum í fjárfestingaflokki (e. investment grade)  fyrir móttöku innstæða og útgáfu skuldabréfa (e. deposit and issuer ratings) í erlendri og innlendri mynt. Einkunnirnar eru með stöðugum horfum.

Einkunnirnar endurspegla sterka eiginfjárstöðu Kviku ásamt sterkri arðsemi og lausafjárstöðu, fjölbreytt tekjustreymi samstæðunnar,aukið mikilvægi bankastarfsemi sem bindur lítið eigið fé sem og hagnaðarframlags frá vátryggingastarfsemi í gegnum TM tryggingar hf.

Kvika hóf lánshæfismatsferlið í upphafi árs 2022 í kjölfar birtingar á EMTN útgáfuramma samstæðunnar og fyrstu skuldabréfaútgáfu bankans erlendis. Lánshæfismatinu er ætlað að styðja við skuldabréfaútgáfu og aðra fjármögnun samstæðunnar.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku:

Við erum gríðarlega ánægð með þá staðfestingu sem felst í lánshæfismatseinkunn Moody‘s en hún er góð viðurkenning á Kviku sem traustum útgefanda skuldabréfa og móttakanda innstæða. Lánshæfismatseinkunnin er mikilvægur hluti af þjónustu okkar og tengslamyndun við erlenda fjárfesta og gegnir stóru hlutverki í að lækka fjármagnskostnað, auka aðgengi að breiðari grunni fjárfesta og auka fjölbreytni í fjármögnun samstæðunnar. Þá er ánægjulegt að sjá að Moody‘s minnist sérstaklega á tekjudreifingu félagsins sem mikinn styrkleika, sem hvetur okkur enn frekar áfram í þeirri vegferð sem félagið hefur verið á síðastliðin ár.

Vinsamlegast athugið að tilkynning þessi er tilkynning á innherjaupplýsingum á grundvelli 17. gr. MAR

Fyrir frekari upplýsingar vinsamlegast hafið samband við fjárfestatengsl Kviku banka, fjarfestatengsl@kvika.is