Kvika banki hf.: Kvika tekur yfir hluta viðskiptasambanda Valitor hf.


Kvika banki hf. („Kvika“ eða „bankinn“) og Rapyd Financial Network (2016) Ltd. („Rapyd“) hafa samið um að Kvika, og síðar dótturfélag Kviku, taki yfir hluta af samningum Valitor hf. („Valitor“) við söluaðila. Viðskiptin eru háð endanlegu samþykki Samkeppniseftirlitsins sem og samþykki eftirlitsaðila fyrir samruna Rapyd og Valitor. Markaðshlutdeild Kviku á færsluhirðingarmarkaði á Íslandi eftir að bankinn tekur yfir samningana verður sterk og mun gera bankanum kleift að keppa af krafti á markaðnum.

Kvika veitir í dag ýmsa þjónustu með greiðslulausnir og mun þessi samningur styrkja stöðu Kviku í greiðsluþjónustu á Íslandi verulega.

Samkvæmt samningnum er fyrirhugað að dótturfélag bankans verði svokallaður Payment Facilitator og á næstu mánuðum taka yfir samninga við viðkomandi söluaðila í samræmi við ákvæði samningsins, sem eftirleiðis verða þá viðskiptavinir bankans eða dótturfélags hans. Í kjölfar yfirfærslu samninganna mun Valitor veita tiltekna bakendaþjónustu og annast færsluhirðingarvinnslu vegna þeirrar færsluhirðingar sem dótturfélag Kviku veitir söluaðilum.

Áhrif samningsins á eiginfjárgrunn Kviku eru hverfandi og gert er ráð fyrir að áhrif á afkomu ársins 2022 verði lítil. Þá er gert ráð fyrir að samningurinn hafi 200-300 m.kr. jákvæð áhrif á afkomu bankans fyrir skatta frá og með árinu 2023.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka hf.:

Á undanförnum árum höfum við markvisst unnið að því að fjölga og byggja upp tekjustoðir félagsins og er þessi samningur enn ein varðan á þeirri leið. Umhverfi fjármálafyrirtækja er að breytast og stefna Kviku er að vera virkur þátttakandi í þeim breytingum. Þessi samningur mun gera það að verkum að við munum vera í einstakri stöðu til þess að bjóða fyrirtækjum upp á áhugaverðar lausnir og auka samkeppni í greiðslumiðlun og í annarri fjármálaþjónustu.