Eik fasteignafélag hf.: Samkomulag um einkaviðræður


Eik fasteignafélag hf. skrifaði í dag undir samkomulag um helstu skilmála kaupsamnings um allt útgefið hlutafé í Lambhagavegi 23 ehf., kt. 411286-1349, og Laufskálum fasteignafélagi ehf., kt. 701216-0750. Bæði félögin eru að fullu í eigu Klappar-eignarhaldsfélags ehf.

Lambhagavegur 23 á 11.944 fermetra gróðurhús í Úlfarsárdal í Reykjavík auk íbúðarhúsnæðis og Laufskálar eiga lóð og fasteign í Lundi í Mosfellsdal, sem er 6.821 fermetrar auk 14.300 fermetra byggingarheimildar. Í atvinnuhúsnæði félaganna fer fram grænmetisrækt Lambhaga ehf. sem einnig er í eigu seljanda. Félagið gerir tilboð sitt í fasteignafélögin í samstarfi við aðila sem samhliða gerir seljanda tilboð í allt hlutafé rekstrarfélagsins.

Auk þess að mæla fyrir um helstu skilmála kaupsamnings, færir samkomulagið kaupanda einkarétt til og með 15. júlí 2022 á að vinna með seljanda og ráðgjöfum hans við að ná endanlegu samkomulagi um viðskiptin og klára kaupsamningsgerð og áreiðanleikakönnun. Samkomulagið felur því ekki í sér skuldbindingu af hálfu félagsins um kaup á hlutafé.

Ákvörðun endanlegs kaupverðs er háð fyrirvörum, meðal annars um framkvæmd og niðurstöður áreiðanleikakannana, en að óbreyttu gæti heildarvirði hins selda í viðskiptunum numið allt að 4.230 m.kr.

Fjárfestingin býður upp á vænlega arðsemi með öflugum leigutaka auk stuðnings við íslenska matvælaframleiðslu. Það er mat Eikar fasteignafélags að matvælaframleiðsla sé vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Þá falli viðskiptin vel að yfirlýstum markmiðum stjórnvalda, um að auka sjálfbærni og efla fæðuöryggi, og aukinni vitundarvakningu neytenda um uppruna og gæði vara.

Frekari grein verður gerð fyrir viðskiptunum á síðari stigum ef viðeigandi framgangur verður í viðræðum og fyrirhugaðri vinnu sem tengist mögulegum viðskiptum. Ráðgjafi félagsins er Arctica Finance hf. en ráðgjafi seljanda er Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka.

Nánari upplýsingar veitir:

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, 590-2200 / 861-3027.