Birting skráningarskjals vegna fyrirhugaðrar skráningar á First North Iceland


Alvotech, hlutafélag (société anonyme) stofnað í samræmi við lög í lögsögu Stórhertogadæmisins Lúxemborg, með skráð heimilisfang að 9, rue de Bitbourg, L-1273 Lúxemborg og skráð á Íslandi undir kennitölunni 671221-9740 („félagið“ eða „Alvotech“), hefur birt skráningarskjal vegna fyrirhugaðrar skráningar á hlutabréfum félagsins („hlutabréfin“) á Vaxtarmarkað Nasdaq First North á Íslandi („First North“ eða „First North Iceland“).

Sótt er um að skrá og taka hlutabréfin til viðskipta undir merkinu ALVO. ISIN-auðkenni hlutabréfanna er LU2458332611. Heildarfjöldi útgefinna hluta í félaginu er 243.649.505 og hver hlutur er að nafnvirði USD 0,01.

Fyrirhugað er að fyrsti viðskiptadagur með hlutabréfin á First North verði 23. júní 2022. Nasdaq Iceland hf. mun birta tilkynningu þess efnis einum degi fyrir fyrirhugaðan fyrsta viðskiptadag á First North.

Félagið var skráð á Nasdaq Stock Market LLC („Nasdaq US“) þann 16. júní 2022. Félagið verður því tví-skráð á Nasdaq US og First North. Fyrir skráninguna hefur ekki verið neinn opinn markaður fyrir hlutabréfin og ekkert almennt frumútboð verður haldið í aðdraganda skráningu hlutabréfanna á First North. Skráningarskjalið er eingöngu útbúið í tengslum við skráningu hlutabréfa félagsins á First North Iceland og skal ekki nota í öðrum tilgangi.

Með birtingu skráningarskjalsins hafa öll skilyrði til töku hlutabréfanna til viðskipta á First North verið uppfyllt.

Skráningarskjal félagsins er að finna á vef félagsins: https://investors.alvotech.com/prospectus

Um Alvotech

Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Hjá Alvotech starfa um 800 manns. Fyrirtækið stefnir að því að verða leiðandi á sviði líftæknilyfjahliðstæða. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Líftæknilyfjahliðstæður eru lyf með sömu klínísku virkni og upprunalegt líftæknilyf. Markaðurinn fer ört vaxandi þar sem líftæknilyf og hliðstæður þeirra hafa reynst afar vel sem meðferð við mörgum sjúkdómum. Líftæknilyfjahliðstæðurnar eru hagkvæmari kostur en viðmiðunarlyfin fyrir sjúklinga og heilbrigðiskerfi. Alvotech vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Markaðurinn fyrir þessi lyf veltir yfir USD 85 milljörðum skv. mati IQVIA. Til að ná sem mestri útbreiðslu lyfja fyrirtækisins um allan heim hefur Alvotech gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila með sterka stöðu á helstu mörkuðum í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu, Suður-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum. Frekari upplýsingar um fyrirtækið má fá á heimasíðu þess, www.alvotech.com

Nasdaq First North

Nasdaq First North er skilgreint sem markaðstorg fjármálagerninga (e. Multilateral Trading Facility) rekið af Nasdaq Nordic kauphöllunum. Markaðurinn hefur ekki lögbundinn sess sem skipulegur markaður innan Evrópusambandsins. Félög á Nasdaq First North lúta reglum Nasdaq First North en ekki þeim lagalegu kvöðum sem fylgja því að skrá fyrirtæki á skipulegan verðbréfamarkað. Áhættan við slíka fjárfestingu getur verið meiri en á Aðalmarkaði.

Viðurkenndur ráðgjafi

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans er viðurkenndur ráðgjafi félagsins í aðdraganda og undirbúningi skráningar á First North. Landsbankinn er með starfsleyfi sem viðskiptabanki skv. lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og lýtur eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Landsbankinn er viðurkenndur ráðgjafi (e. Certified Adviser) á First North markaðnum. Nasdaq Iceland mun gegna eftirliti í kjölfar töku hlutanna til viðskipta

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi: Sé misræmi á milli tilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar úr ensku yfir á íslensku.