Klappir grænar lausnir hf.: Árshlutareikningur fyrstu 6 mánuði ársins 2022


Árshlutareikningur Klappa Grænna Lausna hf. var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 25. ágúst 2022. Árshlutareikningurinn nær yfir tímabilið 1. janúar 2022 til 30. júní 2022. Reikningurinn hefur verið skoðaður af endurskoðendum félagsins, Deloitte ehf.

  • Rekstrartekjur voru 230,6 m.kr. á fyrri hluta ársins 2022 samanborið við 177,4 m.kr á fyrri hluta árs 2021 sem er 30% tekjuvöxtur á milli ára.
  • Rekstrargjöld voru 183,9 m.kr. á fyrri hluta ársins 2022 samanborið við 131,4 m.kr. á sama tíma í fyrra.
  • Rekstrarhagnaður / EBITDA var 46,6 m.kr. á fyrri hluta ársins 2022 eða 20,2 % af rekstrartekjum samanborið við 45,9 m.kr. (25,9%) á fyrri hluta árs 2021.
  • Heildareignir félagsins voru 521,7 m.kr. á fyrri hluta ársins 2022. Þar af voru fastafjármunir 263,3m.kr. og veltufjármunir 258,4 m.kr. Eigið fé nam 422,7 m.kr. og var eiginfjárhlutfall í lok júní 2022 81% en var 83,5% í árslok 2021.
  • Heildarskuldir félagsins voru 98,9 m.kr. í lok júní 2022.
  • Veltufé frá rekstri nam 46,6 m.kr. Fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 44,6 m.kr.
  • Handbært fé nam 12,2 m.kr. í lok júní 2022 en var 48 m.kr. á sama tímabili í fyrra.

Rekstur og afkoma

Tekjur félagsins og afkoma er góð en hækkun tekna frá sama tímabili í fyrra var 30% og rekstrarhagnaður/EBITDA félagsins var 20,2% af rekstrartekjum.

Uppbygging á erlendum mörkuðum

Stafrænt vistkerfi Klappa fyrir sjálfbærni (e. Digital Ecosystem for Sustainability) er að vaxa jafnt og þétt. Staðan á Ísland er þannig að innlendi markaðurinn er orðinn þróaður með lausnum Klappa og því er félagið farið að bjóða innlendum notendum tilteknar viðbótarþjónustur. Verkefnin fyrir einstaka núverandi viðskiptavini á Íslandi eru þó að stækka og verða umfangsmeiri.

Uppbygging á Klappir Nordic hefur gengið mjög vel og er viðskiptavinum félagsins í Danmörku að fjölga hraðar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Klappir vinna að því að byggja upp rafrænt sölutorg fyrir vörur félagsins sem mun auðvelda viðskiptavinum að nálgast vörur og þjónustu þess á öllum mörkuðum. Þessi þróun mun á næstu misserum hraða útbreiðslu lausnarinnar inn á nýja markaði.

Samkeppnisumhverfi

Félagið hefur verið að fá, frá viðskiptavinum sínum á Norðurlöndunum, staðfestingu á því að bæði hugbúnaðarlausn Klappa sem og aðferðafræðin eru mjög ólík öðrum þeim lausnum sem finnast á markaðnum og einnig mun þróaðri. Því hefur félagið  ekki orðið vart við beina samkeppni og því ættu Klappir Nordic að geta vaxið hratt á komandi árum, en sölu- og markaðssvæði Klappir Nordic er nú öll Norðurlöndin. 

Fjármögnun

Nefco, Nordic Green Bank og Klappir hafa undirritað lánssamning með breytirétti í hlutafé í félaginu. Fjármögnunin frá Nefco verður notuð til að byggja upp starfsemina í Evrópu og Norður-Ameríku. Þessi fjármögnun mun þannig verða nýtt til dreifingar á hugbúnaðarlausnum Klappa á erlendum mörkuðum en sérstök áhersla verður á uppbyggingu í Evrópu og Norður Ameríku. Græn fjármögnun Nefco veitir Klöppum tækifæri til að halda áfram að vinna að grænni- og sjálfbærri framtíð, til að vaxa og sækja fram á alþjóðlegum mörkuðum.

Einnig hefur Nefco veitt Klöppum styrk til að framkvæma markaðskönnun í Norður-Ameríku og undirbúa beina sölu- og markaðssetningu á vörum félagsins þar ytra.

Lagaumhverfi og sjálfbærni

Lagaumhverfið tengt upplýsingagjöf um sjálfbærni er að styrkjast mikið í Evrópu en þetta setur auknar kröfur á fyrirtæki um upplýsingagjöf. Flokkunarkerfi ESB og ný tilskipun um sjálfbærni í skýrslugerð fyrirtækja skapar áskoranir fyrir mörg fyrirtæki um að uppfylla kröfurnar. Einnig eru alþjóðlegar kröfur Sameinuðu Þjóðanna varðandi upplýsingagjöf í tengslum við sjálfbærni að styrkjast verulega og þess má vænta að fjöldi laga og reglugerða varðandi umhverfis- og loftslagsmál muni margfaldast á komandi árum. Það mun því verða sífellt erfiðara fyrir fyrirtæki að tryggja að þau starfi í samræmi við gildandi lög án þess að nýta sér hugbúnað til að halda utan um umhverfismálin. Verið er að undirbúa Klappir undir úttektir og vottanir en þessi vinna er unnin innan ISAE 3000 en vonir standa til að úttekt fáist á næsta ári.

Flutningur og starfsmannamál

Klappir fluttu skrifstofu félagsins á Íslandi að Hlíðasmára 3, í Kópavogi en það var gert einkum til að bæta aðbúnað starfsmanna. Markvisst hefur verið unnið að því að skapa skemmtilegt, hvetjandi og þægilegt umhverfi á nýju skrifstofunni með gildi félagsins að leiðarljósi. Klappir munu halda áfram þeirri vegferð að bjóða upp á vinnuumhverfi sem byggir á jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Til að styrkja þá vegferð hefur félagið verið að vinna í yfirferð á starfslýsingum, skerpa á ferlum og auka upplýsingaflæði.

Næstu áfangar

Haldið verður áfram í að gera vöruframboðið einfaldara og aðgengilegra fyrir viðskiptavini félagsins.

Áframhaldandi stuðningur við Klappir Nordic og frekari uppbygging á vistkerfi Klappa í Danmörku mun verða meginþema í starfseminni á þessu ári. Klappir vonast til að ná þeim áfanga í vetur að hugbúnaður Klappa vaxi hratt og án mikillar eftirfylgni. Markmið félagsins er að á næstu mánuðum verði sölustarfið útvíkkað inn á alla markaði innan Skandinavíu.

Vinna við að skoða möguleika Klappa við að fara inn á Norður Ameríkumarkað (Kanada og Bandaríkin) mun hefjast í haust. Fyrrnefndur styrkur frá Nefco verður nýttur til þeirra verkefna. sem verða unnin með ráðgjöfum sem þekkja vel til á þeim svæðum.

Nálgast má árshlutareikning fyrir fyrstu sex mánuði ársins á:
www.klappir.com/is/fjarfestar

Frekari upplýsingar

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa
S: 664 9200
Netfang: jat@klappir.com

Ólöf Ásta Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs
S: 661 0202
Netfang: olof@klappir.com

Viðhengi



Attachments

Klappir árshlutareikningur samstæðu 30.06.22