Ölgerðin hf.: Uppfærð afkomuspá


Ölgerðin hefur uppfært afkomuspá sína fyrir fjárhagsárið 2022 í kjölfar þess að drög að uppgjöri fyrirtækisins fyrstu 6 mánuði fjárhagsársins liggja fyrir.

Rekja má breytinguna fyrst og fremst til tveggja þátta. Annars vegar hefur sala á vörum fyrirtækisins á hótelum og veitingastöðum aukist, ekki síst vegna umtalsverðrar fjölgunar ferðamanna. Hins vegar er hlutdeild Ölgerðarinnar í bjórsölu hjá ÁTVR stærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Gera má ráð fyrir því að EBITDA afkoma félagsins á fyrri helmingi fjárhagsársins verði um 2,5 ma. kr. en til samanburðar var EBITDA afkoma 1,9 ma. kr. á sama tíma árið 2021. Í því ljósi og með hliðsjón af væntingum fyrir síðari helming fjárhagsársins hefur afkomuspá félagsins fyrir fjárhagsárið 2022 verið hækkuð og er nú gert ráð fyrir að EBITDA afkoma samstæðu Ölgerðarinnar verði á bilinu 4,1 – 4,4 ma. kr.

Það skal þó áréttað að rekstur félagsins er árstíðabundinn og sveiflukenndur og er ný afkomuspá því háð áhættu- og óvissuþáttum sem geta þýtt að afkoman verði frábrugðin því sem greint er frá í þessari spá.

Árshlutareikningur fyrir tímabilið 1. mars 2022 – 31. ágúst 2022 verður birtur 11. október næstkomandi og verður kynningarfundur fyrir hluthafa haldinn sama dag kl. 16:30 í höfuðstöðvum Ölgerðarinnar.

Nánari upplýsingar veitir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar hf., andri@olgerdin.is