Tilkynning frá Ljósleiðaranum


Á hluthafafundi Ljósleiðarans sem haldinn var í dag var samþykkt, með fyrirvara um staðfestingu eigenda Orkuveitu Reykjavíkur (OR), tillaga stjórnar um aukningu hlutafjár félagsins og sölu nýja hlutafjárins. Samkvæmt tillögunni verður OR áfram eigandi meirihluta hlutafjár Ljósleiðarans og nýju hlutirnir boðnir langtímafjárfestum sem hafa almannahagsmuni að leiðarljósi.

Í tilkynningu Ljósleiðarans til Kauphallar 30. júní sl. kom fram að stjórn hefði falið framkvæmdastjóra undirbúning að aukningu hlutafjár, sem borin yrði undir hluthafafund síðar á árinu.

Samþykkt hluthafafundar Ljósleiðarans, sem er nú að öllu leyti í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, er til meðferðar hjá eigendum OR en í sameignarsamningi þeirra segir að óvenjulegum, veigamiklum eða stefnumarkandi ákvörðunum dótturfélaga skuli vísað til eigenda og stjórn OR upplýst um þær. Eigendurnir eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð.

Samþykktin er svohljóðandi:

Hluthafafundur samþykkir að hækka hlutafé félagsins um allt að kr. 4.333.333.333,- að nafnverði (fjórirmilljarðar-þrjúhundruðþrjátíuogþrjármilljónir-þrjúhundruð­þrjátíu­ogþrjúþúsund-þrjúhundruðþrjátíuogþrjárkrónur), þannig að eignarhlutur Orkuveitu Reykjavíkur í félaginu verði ekki minni en 60%.

Stjórn skal ákvarða útboðsgengi og greiðslukjör hinna nýju hluta og í hvaða áföngum heimildin verður nýtt. Núverandi eigandi 100% hlutafjár Ljósleiðarans, Orkuveita Reykjavíkur, fellur frá forkaupsrétti sínum.

Samþykkt þessi er gerð með fyrirvara um staðfestingu eigenda Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. gr. 4.3 í samþykktum Ljósleiðarans ehf. og gr. 8.4 í sameignarsamningi eigenda OR.

Hlutirnir skulu einungis boðnir til kaups langtímafjárfestum sem hafa almannahagsmuni að leiðarljósi, s.s. lífeyrissjóðum, tryggingasjóðum tryggingafélaga og rekstrarfélögum verðbréfasjóða sem annast eignastýringu og umsýslu fyrir fyrrgreinda aðila. Stefnt skal að útgáfu nýrra hluta verði lokið fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2023.

Hlutirnir skulu tilheyra sama hlutaflokki og annað hlutafé í félaginu. Um hömlur á viðskipti með hina nýju hluti og skyldu til innlausnar gilda samþykktir félagsins og gildandi lög. Hinir nýju hlutir skulu veita réttindi í félaginu frá skrásetningardegi hlutafjárhækkunarinnar. Stjórn Ljósleiðarans getur sett nánari reglur um útgáfu hlutanna. Heimild þessi til hlutafjárhækkunar fellur niður 31.12.2024 að því marki sem hún er þá enn ónýtt.

Tengiliður:

Erling Freyr Guðmundsson
framkvæmdastjóri Ljósleiðarans
erling.freyr.gudmundsson@ljosleidarinn.is