Kvika banki hf.: Niðurstöður úr könnunar- og matsferli (SREP) á eiginfjárkröfu Kviku banka


Kviku banka hf. („Kvika“) hafa borist niðurstöður úr könnunar- og matsferli  (e. Supervisory Review and Evaluation Process, SREP) fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á áhættuþáttum í starfsemi og þar af leiðandi eiginfjárkröfu Kviku.

Lykilniðurstöður matsins eru þær að heildareiginfjárkrafa Kviku með eiginfjáraukum lækkar úr 22,6% í 17,7%, sem er 4,9% lækkun frá síðasta mati sem framkvæmt var árið 2019. Lækkunin orsakast að mestu af því að lágmarkskrafa um eiginfjárgrunn (stoð 1 og 2) mun nema 11,5% af áhættugrunni á hverjum tíma í stað 15,1%. Nánar verður gert grein fyrir uppbyggingu eiginfjárkrafna og eiginfjárauka í uppgjörskynningu bankans sem birt verður þann 10. nóvember.

Það er mat stjórnenda Kviku að niðurstaða fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands feli í sér áfanga á þeirri vegferð sem bankinn hefur verið á síðustu ár, að fjölga tekjustoðum og dreifa áhættu. Matið er með fyrirvara um andmælarétt Kviku og mun Kvika nú fara nánar yfir niðurstöðurnar og meta hvort tilefni sé til athugasemda.

Nánari upplýsingar veita fjárfestatengsl Kviku banka á netfanginu fjarfestatengsl@kvika.is


Vinsamlegast athugið að tilkynning þessi er tilkynning á grundvelli 17. gr. MAR.