Síminn hf. - Breyting á framkvæmdastjórn Símans


Erik Figueras Torras, framkvæmdastjóri Stafrænnar þróunar hjá Símanum, er á förum frá Símanum til annarra starfa. Hann var ráðinn til Símans árið 2013 sem framkvæmdastjóri Tæknisviðs og hefur verið framkvæmdastjóri síðan.

Erik Figueras Torras: „Það hefur verið í senn krefjandi og skemmtilegt að starfa hjá Símanum undanfarinn áratug. Miklar breytingar hafa átt sér stað, bæði hjá fyrirtækinu sjálfu og á markaðinum öllum. Í störfum mínum hjá Símanum hef ég séð með eigin augum hvernig fjarskipti stytta fjarlægðir á milli manna og hafa þannig jákvæð áhrif á það samfélag sem við búum í. Ég vil á þessum tímamótum þakka öllu mínu samstarfsfólki fyrir gott og gefandi samstarf á liðnum árum.“

Orri Hauksson, forstjóri Símans: „Það verður með mikilli eftirsjá sem við hjá Símanum munum innan skamms kveðja Erik Figueras. Hann hefur verið framsýnn og hugmyndaríkur leiðtogi hjá okkur um langa hríð, auk þess að vera framúrskarandi starfsfélagi og fyrirmynd. Við óskum Erik velfarnaðar í þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur.“

Erik lætur af störfum í lok nóvember. Á næstu dögum verður staða hans auglýst, en Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri Miðla, mun hlaupa í skarðið þar til nýr framkvæmdastjóri kemur til starfa.

Nánari upplýsingar veitir Orri Hauksson, forstjóri Símans, orri@siminn.is.