Fly Play hf.: Boðun hluthafafundar


Fly Play hf.: Boðun hluthafafundar

Stjórn Fly Play hf. („Play“ eða „félagið“) boðar til hluthafafundar í félaginu miðvikudaginn 30. nóvember 2022 a skrifstofu félagsins að Suðurlandsbraut 14, 108 Reykjavik, kl. 16:30.

Þann 3. nóvember 2022 var tilkynnt að Play hafi safnað bindandi áskriftarloforðum að nýju hlutafé í félaginu með samningum við 20 stærstu hluthafa félagsins.

Áskriftirnar eru fyrir 157.534.247 hlutum að nafnverði og er útgáfugengið á hvern hlut kr. 14,6. Áskriftir hafa því þegar fengist fyrir þeim fjölda nýrra hluta. Í þeim tilgangi að efna framangreinda áskriftarsamninga leggur stjórn fram tillögu þess efnis að henni verði veitt heimild til að hækka hlutafé félagsins. Til að tryggja jafnfræði hluthafa með því að gefa öðrum hluthöfum félagsins tækifæri á að taka þátt í hlutafjárhækkuninni á sömu kjörum leggur stjórn til að henni verði heimilt að gefa út allt að 228.670.505 nýja hluti.

Efnt verður til útboðs meðal annarra hluthafa en 20 stærstu hluthafa þar sem þeim verður gefinn kostur á að skrá sig fyrir allt að 71.136.258 nýjum hlutum á sömu kjörum og 20 stærstu hluthafarnir. Útboðið nær til annarra aðila en 20 stærstu hluthafa sem skráðir voru hluthafar í félaginu í lok dags þann 3. nóvember 2022, þann dag þar sem tilkynnt var um bindandi áskriftarloforð 20 stærstu hluthafa. Stjórn félagsins mun horfa til jafnræðis hluthafa við úthlutun á hinum nýju hlutum í félaginu sem seldir verða í útboðinu. Tekið verður við áskriftum hluthafa á sérstöku rafrænu áskriftarformi sem hluthafar munu geta nálgast á vefslóðinni www.arctica.is/play-utbod frá kl. 10:00 (GMT) mánudaginn 28. nóvember 2022 til miðvikudagsins 30. nóvember 2022 kl. 18:00 (GMT).

Félagið hefur ráðið Arctica Finance hf. til að hafa umsjón með útboðinu, útgáfu og töku hinna nýju hluta til viðskipta ásamt því að annast innheimtu og uppgjör viðskiptanna í tengslum við útboðið.

Markmið með söfnun áskriftarloforðanna er að efla félagið fyrir komandi vöxt og tryggja sterka lausafjárstöðu þess. Með bindandi áskriftarloforðum 20 stærstu hluthafa félagsins, sem tilkynnt hefur verið um, hafi félagið nú þegar tryggt þá hlutafjárhækkun sem félagið stefnir að. Útboðið sé því fyrst og fremst til þess að tryggja jafnræði hluthafa. Nýti aðrir hluthafar rétt sinn til að skrá sig fyrir nýju hlutafé styrkist lausafjárstaða félagsins enn frekar.

Samhliða útgáfu hlutanna verða gefin út áskriftarréttindi að hlutum fyrir allt að 57.167.631 hluta að nafnverði. Áskriftarverðið skv. áskriftarréttindunum mun nema sama verði og í hlutafjárútgáfunni auk vaxta frá útgáfudegi sem nema 7-daga veðlánavöxtum Seðlabanka Íslands. Áskriftarréttindin verða nýtanleg í 10 daga eftir birtingu ársuppgjörs 2023.

Dagskrá fundarins er með eftirfarandi hætti:

  1. Tillaga um breytingar á samþykktum félagsins sem veita stjórn heimildir til:
  1. Að hækka hlutafé félagsins um allt að kr. 228.670.505 að nafnvirði með útgáfu nýrra hluta. Sölugengi hinna nýju hluta skal ákveðið af stjórn félagsins. Hluthafar falla frá forgangsrétti skv. 34. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Heimildin gildir til aðalfundar félagsins fyrir rekstrarárið 2022. Nýir hlutir skulu veita réttindi frá skráningardegi hlutafjárhækkunarinnar og gilda samþykktir félagsins um þá.
  2. að gefa út áskriftarréttindi sem veita rétt til áskriftar að hlutum allt að nafnverði kr. 57.167.631. Áskriftarréttindin má nýta í 10 daga frá þeim degi sem ársuppgjör fjárhagsársins 2023 er birt. Áskriftargengið er það sama og í útgáfu hluta sem fer í tengslum við þessa heimild, auk vaxta sem nema gildandi 7-daga veðlánavöxtum Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Heimild þessi gildir til 31. desember 2022, að því marki sem hún hefur ekki verið nýtt. Stjórn er jafnframt heimilt til 1. maí 2024 til að ákveða hækkun hlutafjár félagsins í samræmi við nýtingar áskriftarréttinda. Hluthafar falla frá forgangsrétti sínum í tengslum við útgáfu áskriftarréttinda og nýrra hluta sem gefnir verða út vegna nýtingar slíkra áskriftarréttinda.
  1.  Önnur mál, löglega fram borin.

Meðfylgjandi er fundarboð, tillögur og greinargerð stjórnar með nánari upplýsingum.

Allar nánari upplýsingar um hluthafafundinn verður að finna á vefsíðu félagsins https://www.flyplay.com/investor-relations

Stjórn Fly Play hf.


Viðhengi



Attachments

Hluthafafundur Fly Play hf - Fundarboð Tillögur sem lagðar eru fyrir hluthafafund Fly Play hf.