Árshlutareikningur Félagsbústaða 30.09.2022


Árshlutareikningur Félagsbústaða 30.09.2022

Stjórn Félagsbústaða hf. samþykkti árshlutareikning félagsins fyrir fyrstu 9 mánuði ársins 2022 á fundi sínum í dag 24. nóvember.

Hagnaður vegna hækkunar á eignasafni

Hagnaður félagsins á tímabilinu nam 16.750 m.kr. og er hann allur tilkominn vegna hækkunar á virði fasteignamats eigna félagsins. (Hagnaðurinn verður ekki innleystur nema með eignasölu.)

Sjóðstreymi Félagsbústaða sýnir að handbært fé frá rekstri var 1.088 m.kr. samanborið við 905 m.kr. á sama tíma árið áður. Afborganir langtíma lána á tímabilinu námu 904 m.kr. Helstu kennitölur reikningsins eru:

  • Rekstrartekjur tímabilsins námu 4.225 m.kr.
  • Afkoma fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 1.797 m.kr. eða 42,5% af rekstrartekjum
  • Matshækkun fjárfestingareigna á tímabilinu nam 21.555 m.kr.
  • Virði fjárfestingareigna í lok tímabils er 148.121 m.kr.
  • Eigið fé í lok tímabilsins er 84.061 m.kr.
  • Eiginfjárhlutfall í lok tímabils er 56,4%
  • Vaxtaberandi skuldir í lok tímabils nema 55.750 m.kr.

Rekstur og afkoma

Rekstrartekjur Félagsbústaða á fyrstu 9 mánuðum ársins 2022 námu 4.225 m.kr., er það aukning um 11,4% milli tímabila sem skýrist af hækkun leiguverðs vegna verðlagsbreytinga. Rekstur og viðhald eigna hækkar um 349 m.kr. eða um 21,3% á milli tímabila. Rekstrar-hagnaðarhlutfall (EBIT%) er 42,5% samanborið við 46,4% fyrir sama tímabil árið 2021.

Eignasafn og efnahagur

Heildareignir félagsins námu 149.122 m.kr. í lok tímabils en þær jukust um 17,9% frá ársbyrjun. Fjárfestingareignir jukust um 19,6% eða 24.313 m.kr., fjárfest var fyrir 2.758 m.kr. og matsbreyting nam 21.555 m.kr. Heildarskuldir nema 56.396 m.kr. og hækkuðu um 3.215 m.kr. á tímabilinu. Eigið fé hækkaði um 24,9% á tímabilinu. Eiginfjárhlutfall í lok árs var 56,4% en 53,2% í lok árs 2021.

Skuldabréfaútboð

Félagsbústaðir eru með skráð skuldabréf í Kauphöll Íslands og fylgja þeim reglum sem gilda um skráð félög. Samþykktir félagsins kveða einnig á um fyrirkomulag ýmissa þátta í starfseminni og eru þær aðgengilegar á vefsíðu þess ásamt þeim lögum sem gilda um félagið.

Ekki hafa verið tekin nein lán á fyrstu 9 mánuðum ársins 2022. Félagið hefur fjármagnað sig með útgáfu á félagslegum skuldabréfum í skuldabréfaflokknum FB100366 SB. Skuldabréfaflokkurinn er verðtryggður með ársfjórðungslegum jöfnum greiðslum til lokadags þann 10. Mars 2066 og hann ber einfalda ábyrgð Reykjavíkurborgar. Alls hafa verið gefnar út 18.800 milljónir að nafnvirði í skuldabréfaflokknum. Flokkurinn er skráður á Sustainable Bond markaði Nasdaq Iceland.

Þróun eignasafns

Félagsbústaðir keyptu 45 fasteignir og seldu 2 fasteignir á fyrstu 9 mánuðum ársins 2022 en áform voru um að fjölga leigueiningum um 48 á tímabilinu.

Nánari upplýsingar veitir:

Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri, sigrun@felagsbustadir.is, sími 520 1500

Viðhengi



Attachments

Árshlutareikningur Félagsbústaða 30.09.2022 Árshlutareikningur Félagsbústaða 30.09.2022 undirritaður