MIKIL UPPBYGGING FRAMUNDAN Í MOSFELLSBÆ



7. desember 2022

 

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 og næstu þrjú ár þar á eftir var samþykkt við seinni umræðu í bæjarstjórn þann 7. desember.

  • Nýjum lóðum verður úthlutað í 5. áfanga uppbyggingar í Helgafellslandi.
  • Fjárfest verður fyrir rúma 4 ma.kr. til að byggja upp innviði.
  • Áformað er að A- og B-hluti verði rekinn með 374 m.kr. afgangi á næsta ári.
  • Veltufé frá rekstri verður jákvætt um 2.103 m.kr. eða 11% af heildartekjum.
  • Álagningarhlutfall fasteignagjalda lækkar til að koma til móts við hækkun fasteignamats.
  • Skuldir sem hlutfall af tekjum munu lækka og skuldaviðmiðið verður 94%. 
  • Álagningarhlutfall útsvars verður 14,52% en útsvar er um 52% af heildartekjum sveitarfélagsins.
  • Hækkun á gjaldskrám verður hófleg og til samræmis við breytingar á verðlagi.
  • Íbúar eru um 13.300 og er ætluð fjölgun um 2,5% á milli ára.

Fjárhagsáætlun ársins 2023 er fyrsta fjárhagsáætlun nýs meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar. Í henni er að finna áherslur sem koma fram í málefnasamningi flokkanna.

Afgangur af rekstri Mosfellsbæjar næst fram þrátt fyrir erfitt efnahagslegt umhverfi, aukningu í þjónustu og miklar framkvæmdir á næsta ári.

Rekstrarumhverfi sveitarfélaga er viðkvæmt, ekki síst vegna hækkandi fjármagnskostnaðar og óvissu í kjaramálum.

Helstu verkefni á sviði velferðarmála

Á sviði velferðarmála verður NPA-samningum fjölgað og tækifæri einstaklinga til atvinnu við hæfi verða aukin. Bætt verður í ráðgjöf við fjölskyldur og börn og frístundaþjónusta við fötluð börn efld, sem og skammtímadvöl. Uppbygging búsetuúrræða fyrir fatlað fólk heldur áfram og gert er ráð fyrir stofnframlögum til óhagnaðardrifinna félaga. Loks verður heimaþjónusta fyrir eldri borgara efld.

Helstu verkefni á sviði fræðslu- og frístundamála

Á næsta ári er gert ráð fyrir að öll börn fái þjónustu að loknu fæðingarorlofi foreldra, skólaþjónusta verður styrkt með fjölgun starfsmanna og 50 ný leikskólapláss tekin í notkun til að mæta fjölgun barna. Lokið verður við endurbætur á 1. hæð Kvíslarskóla og átak gert í endurbótum á skólalóðum og það sama á við um íþróttahús og útisvæði við Helgafellsskóla. Áhersla verður lögð á heildstæða uppbyggingu íþróttasvæða í bæjarfélaginu.

Á sviði íþróttamála stendur til að endurbæta gervigras á fótboltavelli við Varmá sem og hönnun og útboð á endurgerð aðalvallar. Þá hefst undirbúningur að byggingu þjónustubyggingar við íþróttahúsið á árinu.

Á árinu 2023 verður ennfremur haldið áfram að innleiða farsældarlögin með Farsældarhringnum sem er samstarfsverkefni velferðarsviðs og fræðslu- og frístundasviðs. Fjárheimildir eru auknar til stoðþjónustu við börn í leik- og grunnskólum og ráðgjafaþjónustu við börn og fjölskyldur.

Helstu verkefni á sviði umhverfismála

Endurskoðun á aðalskipulagi stendur yfir og umhverfissvið verður styrkt með fjölgun starfsmanna til að styðja við fyrirsjáanlegan vöxt næstu ára á uppbyggingarsvæðum bæjarins. Þá er vinna hafin við forgangsröðun og gerð rammaskipulags mögulegra uppbyggingasvæða. Nýjum lóðum verður úthlutað í 5. áfanga uppbyggingarinnar í Helgafellslandi og gert er ráð fyrir umfangsmiklum framkvæmdum við stofnlagnir vatns-, hita- og fráveitu ásamt raf- og fjarskiptalögnum á atvinnusvæðinu í Blikastaðalandi.

Helstu verkefni á sviði þjónustu og menningarmála

Stafrænn leiðtogi Mosfellsbæjar hefur verið ráðinn og bærinn tekur þátt í stafrænum verkefnum á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samhliða stafrænni umbreytingu verða þjónustuferlar teknir til endurskoðunar. Á sviði menningarmála verður viðburðum á vegum Mosfellsbæjar í Hlégarði fjölgað og samstarf við bókasöfn á höfuðborgarsvæðinu aukið. Þá verður hafin vinna við mótun stefnu á sviði atvinnu- og nýsköpunarmála og eins unnið að því að Mosfellsbær hljóti viðurkenningu sem Barnvænt samfélag á kjörtímabilinu.

Nánari upplýsingar veitir:

Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri í síma 8581800, regina@mos.is.

 

Viðhengi



Attachments

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2023-2026 - samþykkt 7. desember 2022