RARIK tekur lán hjá Norræna fjárfestingarbankanum


RARIK og Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) hafa undirritað lánasamning um allt að 20 milljón evra lán. Samningurinn er til 15 ára með uppgreiðsluheimild eftir fimm ár og er til fjármögnunar á framkvæmdum við endurnýjun og þrífösun loftlínudreifikerfisins með jarðstrengjum.

Annars vegar er láninu ætlað að endurfjármagna verkefni ársins 2022 og hins vegar að fjármagna að hluta verkefni áranna 2023 og 2024 við jarðstrengsvæðingu. Unnið hefur verið að endurnýjun kerfisins með jarðstrengjum á undanförnum árum og er markmiðið með því að draga úr truflunum og rafmagnsleysi vegna veðurs.

RARIK hefur þegar lagt 75% af dreifikerfi sínu í jörð, en fyrirtækið hefur ákveðið að endurnýja allt dreifikerfi sitt með jarðstrengjum á næstu árum til að auka afhendingaröryggi. Með þessum aðgerðum er RARIK einnig að draga úr viðhaldsþörf og styrkja kerfið til að takast á við aukna raforkunotkun, m.a. vegna orkuskipta.

Nánari upplýsingar veitir Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri RARIK í síma 528 9000.