Klappir Grænar Lausnir hf.: Ársreikningur 2022



Klappir Grænar Lausnir hf.: Ársreikningur 2022

Ársreikningur Klappa var samþykktur á stjórnarfundi Klappa grænna lausna hf. þann 28. mars 2023. Ársreikningurinn hefur verið endurskoðaður af endurskoðendum félagsins, Deloitte og er hann aðgengilegur á heimasíðu Klappa hf. www.klappir.com/investors

Helstu stærðir

  • Stafrænt samfélag Klappa samanstendur af 1.500 lögaðilum
  • Fjöldi landa í stafrænu samfélagi Klappa er 41
  • Samanlagður fjöldi bakhjarla Klappa voru 316 hluthafar
  • Meðalfjöldi starfsmanna árið 2022 var 25 (20 starfsmenn 2021)
  • Heildartekjur félagsins voru 447,6 mkr. (380,1 mkr. árið 2021)
  • EBITDA af reglulegri starfsemi var 59,3 mkr. (72,8 mkr. árið 2021)
  • Afskriftir og niðurfærsla voru 68,1mkr.
  • Tap tímabilsins nam -13,8 mkr. án áhrifa dótturfélags.
  • Heildareignir voru 614,7 mkr.
  • Heildarskuldir voru 241,4 mk.r (88,3 mkr. árið 2021)
  • Eiginfjárhlutfall var 61%
  • Veltufjárhlutfall var 1,7


Yfirlit
Rekstur Klappa er í öllum megindráttum í samræmi við rekstraráætlun félagsins.

  • Fjárfest var í uppbyggingu á Klappir Nordic en kostnaður umfram tekjur var 21 mkr.
  • Fjárfesting í vöruþróun jókst um 32% á milli ára.
  • Hugbúnaður Klappa hefur fengið ISAE 3000/Type I vottun.
  • Vaxtaberandi skuldir námu í árslok 241,4 (88,3 mkr árið 2021) sem skýrist á því að tekið var lán með breytirétti frá Nefco (Nordic Green Bank) upp á €2m til að fjámagna fjárfestingu í uppbyggingu markaða og vöruþróun.
  • Vistkerfi Klappa nær nú inn í 41 land og er í notkun hjá 1.500 lögaðilum. Áfram verður fjárfest í uppbyggingu stafræna samfélagsins.

Sýn og stefna
Fyrir um áratug síðan byrjuðu Klappir að þróa stafræna tækni til að halda utan um umhverfismál. Í byrjun voru viðskiptavinirnir fáir en með tilkomu Parísarsamningsins 2015 breyttust viðhorfin og fjöldi viðskiptavina margfaldaðist. Sýnin var að einungis með samstilltu átaki væri hægt að ná raunverulegum og nauðsynlegum árangri í baráttunni við loftslagsvána. Í framhaldinu var tekin sú stefna að byggja Klappir upp á grundvelli tveggja meginstoða samvinnu og samheldni:

  • Klappir myndu fjárfesta í uppbyggingu á stafrænum innviðum fyrir sjálfbærni (e. digital ecosystem for sustainability) sem öll fyrirtæki, sveitarfélög og ríki heims hefðu aðgang að.  Til að fylgja þessu vel eftir þá voru allir þróunarkraftar félagsins settir á bak við þessa sýn.
  • Klappir myndu opna öllum aðgang að félaginu bæði einstaklingum og fjárfestum sem vildu styðja við Klappir í þessari vegferð og verða bakhjarlar félagsins. Félagið var því skráð á First North markað í kauphöllinni árið 2017 til að fylgja eftir þessari sýn.

Ný tilskipun ESB markar tímamót hjá Klöppum
Ný tilskipun ESB um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja (CSRD) sem áætlað er að taki gildi á Íslandi árið 2024 setur niður lagalega umgjörð fyrir ábyrgð fyrirtækja á sjálfbærni í víðum skilningi. Tilskipunin og tilheyrandi staðall (ESRS) mun ná beint til 50.000 fyrirtækja í Evrópu og snerta strax meira en 5 milljónir fyrirtækja beint eða óbeint.

Klappir vinna nú að því að aðlaga eigin tækni og aðferðafræði að staðlinum. Þessi vinna mun verða unnin á komandi mánuðum. Auk þess að vinna beint að tækninni og aðferðafræðinni þá er einnig unnið að því að ná breiðu samtali við viðskiptavini, sjálfbærniráðgjafa og staðfestingaraðila um þróunina á hugbúnaðinum og tilheyrandi aðferðafræði. Mikilvægt er að fyrirtæki og sjóðir byrji að undirbúa sig sem allra fyrst því staðallinn er umfangsmikill og miklar kröfur gerðar til upplýsingagjafar.

Stafrænt samfélag Klappa og innviðauppbygging
Á komandi árum ætla Klappir sér að halda áfram að fjárfesta í uppbyggingu á stafrænum innviðum fyrir sjálfbærni í fleiri löndum og tengja fleiri lögaðila við innviðina í hverju landi. Nú þegar er stafrænt samfélag Klappa í 41 landi og með 1.500 lögaðila sem hafa aðgang að fastmótaðri, staðlaðri framsetningu og vinnslu upplýsinga um sjálfbærni í gegnum innviðina.

Lögaðilar sem tengjast stafrænum innviðum Klappa fyrir sjálfbærni geta valið á milli þess að:

  • Eingöngu fleyta gögnum til sinna viðskiptavina í gegnum innviðina. Þessir aðilar hafa frían aðgang.
  • Fleyta gögnum til sinna viðskiptavina, taka til sín gögn og nýta lausnapall klappa til að vinna að eigin sjálfbærni. Þessir aðilar greiða fyrir aðgang.

Þessir aðilar saman mynda stafrænt samfélag Klappa. Áfram verða okkar mikilvægustu verkefni að stækka samfélagið og fjölga lögaðilum sem vinna að sjálfbærni í hugbúnaði Klappa.

Áhætta og öryggismál
Á árinu 2022 luku Klappir við að innleiða ISAE 3000/Type I - kerfi sem heldur utan um innri ferla, tæknina sem Klappir þróa og öryggismál. Fyrsta hluta vinnunar lauk í lok árs 2022 og í janúar 2023 fengu Klappir úttekt Deloitte á ISAE 3000 kerfinu (Reasonable Assurance).

Þetta var mikilvægur áfangi fyrir Klappir, en ISAE 3000 innleiðingin er til að staðla framsetningu upplýsinga til stafestingaraðila sem staðfesta sjálfbærniuppgjör samkvæmt ESRS (limited assurance). Aðilar sem skila sjálfbærniuppgjöri samkvæmt ESRS eiga að vera með uppgjörið staðfest af staðfestingaraðila (Limited Assurance og í framhaldinu Reasonable Assurance).

Til að koma til móts við auknar kröfur Evrópska fyrirtækja um gagnaöryggi þá vinna Klappir að því að  flytja tækni og gagnainnviði frá Bandaríkjum til Stokkhólms en áætlað er að því verkefni ljúki á fyrri hluta ársins 2023.

Sala og markaðsmál
Klappir fengu grænt lán upp á €2,0 milljónir með breytirétti frá Nefco (Nordic Green Bank) á árinu. Lánið er ætlað til að styðja við sókn Klappa inn á erlenda markaði og áframhaldandi vöruþróun. Klappir stefna á að taka skrefin inn á erlenda markaði í góðum takti við auknar kröfur opinbera aðila og aukinnar eftirspurnar á markaði.

Vaxandi  þörf er fyrir stafrænar sjálfbærnilausnir sem hafa sannað gildi sitt á markaði og hafa náð eftirtektarverðum árangri. Með ESRS mun krafan um nákvæmni upplýsinga, rekjanleika og gagnsæi verða rauði þráðurinn í upplýsingagjöf. Því þurfa aðilar sem áður hafa unnið sjálfbærniupplýsingar í töflureiknum (t.d. excel) að skipta þeim út fyrir sérhæfðar og staðlaðar sjálfbærnilausnir sem uppfylla lagaleg staðla á hverjum tíma og tryggja hámarks öryggi gagna.

Sókn inn á nýja markaði er stóra verkefni Klappa á næstu árum en það felst í því að opna og útvíkka stafrænt samfélag Klappa inn á ný landsvæði. Fyrsti áfangastaður  er að opna samfélagið fyrir öllum lögaðilum á Norðurlöndum á markaði þar sem mikill metnaður er fyrir því að taka sjálfbærnimál alvarlega.  Þessi vegferð hófst á árinu 2022 Í Danmörku þegar Klappir tengdist mikilvægum gagnainnviðum sem nú í dag gefa fyrirtækjum og stofnunum tækifæri að tengjast stafrænu samfélagi Klappa og hefja sína sjálfbærni vegferð.  Fyrstu viðskiptavinirnir á þessum nýja markaði komu til Klappa  á árinu en þeir voru þekkt dönsk og sænsk félög. Í dag er unnið náið með þessum félögum í því að tengja virðiskeðju fyrirtækjanna við samfélag Klappa sem hefur nú dreift til  41 lands.

Í lok ársins var heildarfjöldi lögaðila í stafræna samfélaginu orðinn 1.500. Útvíkkun og uppbygging á samfélagsins, á nýjum markaðssvæðum mun fyrst hafa markviss áhrif á tekjuvöxt fyrirtækisins á árinu 2023 og 2024. Samt sem áður var tekjuvöxtur fyrirtækisins á heimamarkaði um 18% sem skilaði sér í jákvæðri EBITDA afkomu af rekstri Klappa.

Tækifæri Klappa til að vaxa erlendis eru mikil þar sem hugbúnaðurinn og aðferðafræðin er gerð fyrir alþjóðlegan markað. Markaður Klappa er alþjóðlegur og mikil vöntun er á heildstæðum  sjálfbærnilausnum til að halda utan um sjálfbærni hjá fyrirtækjum, sveitarfélögum og opinberum aðilum víðsvegar í heiminum.  Undirbúningur fyrirtækisins inn á ný markaðssvæði þarf að vera markviss og rétt tímasettur hvað varðar lög og reglur.  Í lok ársins 2022 setti Klappir af stað rannsóknarverkefni til að kanna markaðaðstæður fyrir uppbyggingu á stafræna samfélaginu og lausnum fyrirtækisins fyrir Bandaríkjamarkað. Reiknað er með að þessari vinnu  verði lokið á miðju ári 2023.

Á komandi mánuðum og árum verður allt lagaumhverfi í kringum sjálfbærnimál styrkt, aukið eftirlit og kröfur til áreiðanleika, rekjanleika og gagnsæis uppgjöra verða hertar verulega, sérstaklega í Evrópu. Auknar kröfur og skýr lagaumgjörð í kringum sjálfbærni hvetja fyrirtæki og sveitarfélög til að staðla gagnasöfnun, úrvinnslu á gögnum, greiningar og skýrslugjöf til hagaðila í gegnum stafræna sjálfbærnilausn Klappa.

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri

Nánari upplýsingar:
Frekari upplýsingar veitir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri í síma 664 9200.

Viðurkenndur ráðgjafi Klappa grænna lausna á Nasdaq First North eru ADVEL lögmenn.

Viðhengi



Attachments

Klappir Grænar Lausnir hf. - Ársreikningur 31.12.2022