Fjármálaáætlun 2024-2028: Spornað gegn verðbólgu, lífskjör varin og byggt undir vöxt


Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára sýnir þá stefnu ríkisstjórnarinnar að beita ríkisfjármálunum með markvissum hætti til að sporna gegn verðbólgu og frekari hækkun vaxta með auknu aðhaldi, tekjuöflun og frestun framkvæmda. Á sama tíma er staðinn vörður um mikilvæga grunnþjónustu sem ríkisstjórnin hefur eflt með verulegum hætti á undanförnum árum á grundvelli sterkrar stöðu ríkissjóðs. Þá verður sérstaklega stutt við þá hópa sem síst geta mætt áhrifum hærri verðbólgu líkt og áður hefur verið gert með stuðningsaðgerðum stjórnvalda í gegnum heimsfaraldur og á liðnu ári.

Síðustu misseri hefur náðst mikill og skjótur árangur við að bæta afkomu ríkissjóðs og útlit er fyrir að staðan í ár verði betri en bjartsýnustu sviðsmyndir fyrri áætlana bentu til. Fyrir hálfu öðru ári var það markmið sett í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar að stöðva hækkun skulda sem hlutfall af landsframleiðslu eigi síðar en árið 2026 og innan seilingar er að þessu markmiði verði þegar náð í lok þessa árs.

Þetta kemur fram í nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028. Gert er ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs verði 74 ma.kr. betri í ár en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Hann verður því jákvæður um 24 ma.kr. gangi áætlanir eftir. Í jákvæðum frumjöfnuði felst að tekjur ársins eru hærri en útgjöld að frátöldum vaxtatekjum og -gjöldum. Það yrði í fyrsta sinn frá árinu 2019 sem frumjöfnuður er jákvæður og næst sá áfangi ári fyrr en síðasta fjármálaáætlun gerði ráð fyrir. Afgangur á frumjöfnuði er mikilvægur áfangi í að stöðva hækkun skuldahlutfallsins og stórt skref í átt að því að heildarjöfnuður verði aftur jákvæður undir lok áætlunartímabilsins.

Gangi núverandi áætlanir eftir verður batinn til þess að ríkissjóður heldur nokkuð aftur af eftirspurn og þar með verðbólguþrýstingi árið 2023.

Nánari upplýsingar á www.fjr.is