Reginn hf. – Framlenging gildistíma valfrjáls tilboðs í hlutafé Eikar fasteignafélags hf.


Vísað er til opinbers tilboðsyfirlits, dags. 10. júlí 2023, í tengslum við valfrjálst tilboð Regins hf. („Reginn“ eða „félagið“) í allt hlutafé Eikar fasteignafélags hf. („Eik“) („valfrjálsa tilboðið“).

Með vísan til 6. mgr. 103. gr. laga nr. 108/2007 um yfirtökur hefur Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands í dag samþykkt beiðni Regins um að framlengja gildistíma valfrjálsa tilboðsins um fjórar vikur frá 18. september nk. eða fram til kl. 13:00 þann 16. október nk.

Umrædd framlenging á gildistíma valfrjálsa tilboðsins kemur til í ljósi þess að félagið telur líkur á því að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á fyrirhuguðum viðskiptum verði ekki lokið þegar upphaflegur gildistími tilboðsins rennur út þann 18. september nk. Til upplýsinga hefur félagið átt í samskiptum við Samkeppniseftirlitið í tilefni af valfrjálsa tilboðinu og er samrunatilkynning, í samræmi við ákvæði samkeppnislaga nr. 44/2005, nú til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Framlenging á gildistíma valfrjálsa tilboðsins hefur engin áhrif á þá sem þegar hafa samþykkt tilboðið og þurfa þeir hluthafar Eikar sem þegar hafa samþykkt tilboðið ekki að aðhafast neitt.

Framlenging á gildistímanum felur ekki í sér breytingar á valfrjálsa tilboðinu.

Nánari upplýsingar veitir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins hf., sími: 821 0001