Reginn hf. – Stefnuáherslur vegna valfrjáls tilboðs í hlutafé Eikar fasteignafélags hf.


Vísað er til opinbers tilboðsyfirlits, dags. 10. júlí 2023, í tengslum við valfrjálst tilboð Regins hf. („Reginn“ eða „félagið“) í allt hlutafé Eikar fasteignafélags hf. („Eik“) („valfrjálsa tilboðið“), auk annarra tilkynninga sem félagið hefur sent frá sér vegna valfrjálsa tilboðsins.

Í opinberu tilboðsyfirliti Regins í tilefni af valfrjálsa tilboðinu er fjallað um framtíðaráform og stefnuáherslur sameinaðs félags í kjölfar þeirra viðskipta sem um ræðir. Til þess að varpa nánara ljósi á umrædd áform og mögulega útfærslu viðskiptanna hefur Reginn – í tilkynningu, dags. 30. ágúst 2023, vegna afkomu félagsins á fyrri hluta árs 2023 og kynningu á uppgjörinu sem birt var þann 31. ágúst – kynnt nánar tilgreindar áherslur sem horft verður til á vettvangi sameinaðs félags Regins og Eikar.

Reginn telur rétt að árétta þessar áherslur í tilkynningu þessari þannig að tryggt sé að þær séu jafn aðgengilegar öllum hluthöfum áður en þeir taka upplýsta ákvörðun um valfrjálsa tilboðið. Að öðru leyti vísast til nánari umfjöllunar í uppgjörstilkynningu Regins, dags. 30. ágúst 2023, og kynningu á uppgjörinu, dags. 31. ágúst.

Samkvæmt nánari kynningu á tilboðinu er stefnt að:

60% skuldsetningarhlutfall í sameinuðu félagi

  • Söluandvirði eigna verði ráðstafað til uppgreiðslu skulda til að viðhalda 60% skuldahlutfalli.
  • Afgangi söluandvirðisins verði ráðstafað í arðgreiðslur, fjárfestingar eða blöndu af þessu tvennu.
  • Þetta er mögulegt þar sem yfirtökutilboðið er fullfjármagnað og hluthafafundur Regins samþykkti mótatkvæðalaust heimild stjórnar til hækkunar hlutafjár til að efna uppgjör á valfrjálsa yfirtökutilboðinu.

Í kjölfar stefnumarkandi fjárfestinga undanfarin ár eykst arðgreiðsluhæfi

  • Vatnaskil eru í endurbótum á eignasafni Regins þar sem þróun meginkjarna Regins er á lokametrum sem aftur eykur arðgreiðsluhæfi sameinaðs félags.
  • Á undanförnum árum hefur Reginn fjárfest fyrir um 5 ma.kr. í umbreytingu eigin fasteigna á ári en áætlar að sú fjárhæð muni lækka um 1,5 ma.kr. á næstu árum.
  • Mat Regins er að sameinað félag ætti að hafa arðgreiðslugetu um 5-6 ma.kr. á ári, sem jafngildir 1,5 kr.- 1,8 kr. á hlut.

Meirihluti þróunareigna Eikar seldur á markaði

  • Ráðgert er að meirihluti þróunareigna Eikar verði seldur á markaði en minnihluti verði settur í umsjón Klasa.
  • Þessi leið skilar verðmætum hraðar til hluthafa sameinaðs félags auk þess sem allir hluthafar sameinaðs félags hafa hag af og eignast hlutdeild í þróunarverkefnum.
  • Með þessu næst fram aukinn skýrleiki um framkvæmd viðskiptanna.


Á grundvelli þessarar nálgunar hefur Reginn skilað inn samrunaskrá til Samkeppniseftirlitsins og er hún í lögbundnum farvegi. Eins og fram hefur komið í fyrri tilkynningum hefur Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands fallist á beiðni Regins um að framlengja gildistíma valfrjálsa tilboðsins um fjórar vikur eða til kl. 13:00 þann 16. október næstkomandi. Valfrjálsa tilboðið er háð skilyrðum um að Samkeppniseftirlitið geri ekki athugasemdir við viðskiptin eða setji viðskiptunum skilyrði sem Reginn sættir sig ekki við og að handhafar að lágmarki 75% atkvæðaréttar Eikar samþykki tilboðið.


Nánari upplýsingar veitir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins hf., sími: 821 0001