Hagar hf.: Breyting á framkvæmdastjórn


Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá félaginu frá og með næstu áramótum.  Gengið hefur verið frá samkomulagi þar að lútandi.  Björgvin Víkingsson, aðstoðarframkvæmdastjóri og innkaupastjóri Bónus hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra og tekur við um næstu áramót.  


Finnur Oddsson, forstjóri Haga:
„Guðmundur Marteinsson á að baki afar farsælan feril hjá Bónus yfir tímabil sem spannar meira en þrjá áratugi.  Hann hefur gegnt nánast öllum störfum í Bónus, lengst af sem framkvæmdastjóri, eða frá árinu 1998.  Á þeim tíma hefur Bónus fest sig kyrfilega í sessi meðal landsmanna sem stærsta og öflugasta matvöruverslun landsins.

Það hefur verið bæði lærdómsríkt og ánægjulegt að fá að starfa með Guðmundi undanfarin ár, en velgengni Bónus hefur ekki síst byggt á staðfestu hans við að tryggja íslenskum heimilum ávallt hagkvæmustu matvörukörfu landsins, sem hefur verið markmið félagsins frá stofnun.  Guðmundur skilur við Bónus sem leiðandi fyrirtæki í verslun á Íslandi, þar sem hagkvæmni í rekstri og hagur neytenda eru ávallt sett í fyrsta sætið. 

Guðmundar verður saknað sem leiðtoga og góðs félaga af samstarfsfólki hjá Bónus og í samstæðu Haga. Fyrir hönd Haga þakka ég honum mjög gott samstarf og mikilvægt framlag til íslensks samfélags í gegnum árin. Um leið óska ég honum og fjölskyldu hans velfarnaðar á þessum tímamótum og góðu gengi í því sem hann mun taka sér fyrir hendur næst.

Björgvin Víkingsson mun taka við stjórnartaumunum sem framkvæmdastjóri Bónus á nýju ári.  Það er fengur af því að fá Björgvin í þetta mikilvæga hlutverk, en hann er okkur að góðu kunnur eftir að hafa starfað hjá Bónus frá vormánuðum þessa árs og kynnst starfsemi félagsins vel. Ég er sannfærður um að víðtæk reynsla Björgvins af innkaupum, vörustjórnun og forystu í umsvifamikilli starfsemi mun án efa nýtast vel í að efla starfsemi Bónus enn frekar og tryggja landsmönnum áfram hagkvæmasta kostinn á matvörumarkaði hérlendis.


Guðmundur Marteinsson:
„Tíma mínum hjá Bónus er nú að ljúka og það verður erfitt að kveðja þetta frábæra fyrirtæki eftir rúmlega þrjá áratugi. Ég er stoltur af því að hafa staðið vörð um þau gildi sem mér var trúað fyrir þegar ég tók við félaginu, þ.e.a.s. lágmarks álagningu og sama vöruverði í öllum verslunum Bónus um land allt. Það traust sem viðskiptavinir hafa sýnt Bónus frá upphafi hefur svo verið mér hvatning og stærsta umbun síðastliðin þrjátíu ár.

Ég hef verið svo heppinn að fá að vinna með frábæru starfsfólki og yfirmönnum, sem ég þakka mjög gott samstarf í gegnum tíðina. Að sama skapi er ég þakklátur fyrir samstarf við okkar öflugu birgja og aðra samstarfsaðila sem eiga hlut í velgengni Bónus. Síðast en ekki síst vil ég þakka Ingu Brynju konunni minni fyrir að hafa gert mér kleift að sinna þessari krefjandi vinnu í þennan langa tíma.“ 


Björgvin Víkingsson:
Á undanförnum mánuðum hef ég fengið að kynnast, og vinna með, gríðarlega skemmtilegu og öflugu fólki sem starfar hjá Bónus. Að fá svo tækifæri til þess að taka við keflinu af Guðmundi og halda áfram með það markmið Bónus að bjóða alltaf upp á ódýrustu matarkörfu landsins, tel ég vera mikil forréttindi. Ég þakka traustið sem mér er sýnt og fer fullur tilhlökkunar inn í þetta mikilvæga verkefni.