Reginn hf.: Framlenging gildistíma valfrjáls tilboðs í hlutafé Eikar fasteignafélags hf. til 13. nóvember 2023


Vísað er til opinbers tilboðsyfirlits, dags. 10. júlí 2023, sbr. viðauka, dags. 14. september 2023, í tengslum við valfrjálst tilboð Regins hf. („Reginn“ eða „félagið“) í allt hlutafé Eikar fasteignafélags hf. („Eik“) („valfrjálsa tilboðið“).

Með vísan til 6. mgr. 103. gr. laga nr. 108/2007 um yfirtökur hefur Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands í dag samþykkt beiðni Regins um að framlengja gildistíma valfrjálsa tilboðsins um fjórar vikur frá 16. október nk. eða fram til kl. 13:00 þann 13. nóvember nk.

Umrædd framlenging á gildistíma valfrjálsa tilboðsins kemur til í ljósi þess að félagið telur líkur á því að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á fyrirhuguðum viðskiptum verði ekki lokið þegar fyrri gildistími tilboðsins hefði átt að renna út þann 16. október nk. Fyrirhuguð viðskipti eru til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu en stofnunin hefur tilkynnt Reginn að innsend samrunatilkynning sé fullnægjandi að efni og að tímafrestir hafi byrjað að líða þann 2. október 2023.

Framlenging á gildistíma valfrjálsa tilboðsins hefur engin áhrif á þá sem þegar hafa samþykkt tilboðið og þurfa þeir hluthafar Eikar sem þegar hafa samþykkt tilboðið ekki að aðhafast neitt.

Framlenging á gildistímanum felur ekki í sér breytingar á valfrjálsa tilboðinu.

Nánari upplýsingar veitir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins hf., sími: 821 0001