Eimskip: Tilkynning um framkvæmd nýrrar endurkaupaáætlunar


Á aðalfundi Eimskips þann 9. mars 2023 var stjórn félagsins veitt heimild til þess að kaupa allt að 10% af eigin bréfum fyrir hönd félagsins. Heimildin skyldi m.a. nýtt í þeim tilgangi að koma á formlegri endurkaupaáætlun með það að markmiði að lækka útgefið hlutafé félagsins.

Stjórn Eimskips hefur í dag á grundvelli framangreindrar heimildar tekið ákvörðun um framkvæmd nýrrar endurkaupaáætlunar um kaup á eigin bréfum og er markmið áætlunarinnar að lækka útgefið hlutafé félagsins.

Heimild er til að kaupa hlutabréf í félaginu í 18 mánuði frá aðalfundinum með þeim fyrirvara að félagið ásamt dótturfélögum þess megi einungis eiga mest 10% hlutafjár þess. Endurkaupin munu að hámarki nema 2.150.000 hlutum eða um 1,28% af útgefnum hlutum í félaginu, á kaupverði sem má þó ekki fara yfir kr. 1.000.000.000,- að markaðsvirði.

Endurgjald fyrir keypta hluti skal ekki vera hærra en verð í síðustu óháðu viðskiptum eða jafnt hæsta fyrirliggjandi kauptilboði í Kauphöll Nasdaq Ísland. Hámarksmagn hvers viðskiptadags er fjórðungur af meðaltali daglegra viðskipta með hlutabréf félagsins á aðalmarkaði í september 2023. Hámarksfjöldi leyfilegra hluta á hverjum viðskiptadegi verður því 33.000 frá og með 11. október 2023.

Endurkaupaáætlunin verður framkvæmd af Arctica Finance hf. sem tekur allar viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum og tímasetningu kaupanna, óháð félaginu. Arctica Finance hefur samkvæmt samningi aðila heimild til að hefja endurkaup þann 11. október nk. og mun áætlunin vera í gildi fram til 9. september 2024 , nema skilyrði um hámarkskaup verði uppfyllt fyrir þann tíma.

Framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar verður í samræmi við lög um hlutafélög nr. 2/​1995, 5. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) um markaðssvik nr. 596/2014, sem og framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar 2016/1052, samanber lög um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 60/2021.

Viðskipti með eigin hluti í samræmi við endurkaupaáætlunina verða tilkynnt eigi síðar en við lok sjöunda viðskiptadags eftir að viðskiptin fara fram.

Í dag á Eimskip 1.725.320 hluti að nafnverði í félaginu sem nemur 1,03% af heildarhlutafé félagsins.

FREKARI UPPLÝSINGAR

María Björk Einarsdóttir, fjármálastjóri , sími: 774 0604, netfang: investors@eimskip.com.

Guðbjörg Birna Björnsdóttir, forstöðumaður fjárstýringar og fjárfestatengsla, sími: 844 4752, netfang: investors@eimskip.com