Sýn hf.: Afkomuviðvörun. Einskiptisliðir og afskriftir tengdar rekstrarhagræðingu hafa neikvæð áhrif á afkomu fjórða ársfjórðungs 2023 


 


Við vinnslu á samstæðuuppgjöri Sýnar hf. vegna ársins 2023 liggur fyrir að einskiptisliðir upp á um 840 m.kr., sem ákveðið hefur verið að gjaldfæra á árinu 2023, hafa afgerandi áhrif á afkomu ársins. EBIT afkoma ársins, fyrir utan hagnað vegna sölu stofnnetsins, verður undir áður útgefnu afkomubili, 2.200 – 2.500 m.kr. Skv. uppgjörsdrögum er EBIT afkoma ársins því um 1.108 m.kr. án hagnaðar vegna sölu á stofnneti upp á 2.436 m.kr. Leiðrétt fyrir einskiptisliðum er rekstrarafkoma félagsins á árinu 2023 um 1.948 m.kr. Félagið hafði áður gefið út að EBIT afkoma félagsins myndi vera við neðri mörk afkomubils.  

Af einskiptisliðum vega þyngst afskriftir sýningarrétta, afskriftir eigna hjá innviðum og kostnaður vegna starfsloka fráfarandi forstjóra, auk starfsloka annarra starfsmanna í tengslum við hagræðingaraðgerðir. 

Heildar EBIT afkoma ársins að meðtöldum hagnaði vegna sölu stofnnets er skv. uppgjörsdrögum um 3.544 m.kr. 

Ársuppgjör félagsins er enn í vinnslu, er óendurskoðað og getur tekið breytingum fram að birtingu. Uppgjör ársins 2023 verður birt eftir lokun markaða þann 27. febrúar 2024.