Tímabundið hægt á fjárfestingum Ljósleiðarans


Dregið verður úr fjárfestingum Ljósleiðarans þangað til niðurstaða fæst í hlutafjáraukningu félagsins en samkvæmt ársreikningi 2023, sem samþykktur var af stjórn í dag, var 570 milljóna króna halli á rekstrinum. Tekjur jukust um 13% milli ára og námu 4,3 milljörðum króna á síðasta ári. Eignir Ljósleiðarans nema liðlega 37 milljörðum króna, samkvæmt ársreikningi, og eiginfjárhlutfall um áramót var 34,7%. 

Fjárfest í stofnneti Sýnar 

Ljósleiðarinn starfar á heildsölumarkaði og rekur öflugt grunnnet fjarskipta víða um land. Öll stærstu fjarskiptafyrirtæki landsins veita fjarskiptaþjónustu um burðarnet Ljósleiðarans og helstu tíðindi síðasta árs voru að Ljósleiðarinn gekk frá kaupum á stofnneti Sýnar eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins á viðskiptunum. Á sama tíma var gerður langtíma þjónustusamningur milli félaganna. 

Hlutafjáraukning og sala 

Ljósleiðarinn er nú alfarið í eigu Orkuveitunnar en heimild til aukningar hlutafjár og sölu þess gildir út yfirstandandi ár. Undanfarna mánuði hafa stjórnendur Ljósleiðarans átt kynningarfundi með innlendum og erlendum fjárfestum á markaði.  

Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, segir Ljósleiðarann hafa byggt upp fjarskiptakerfi sitt af miklum krafti undanfarin ár. Í tengslum við þá fjárfestingu séu áform um aukningu hlutafjár. Þau áform hafi tafist. 

„Kaupin á stofnneti Sýnar voru mikilvæg fyrir uppbyggingu Ljósleiðarans, eflda samkeppni og aukið fjarskiptaöryggi í landinu. Hlutafjáraukningin var vitaskuld hugsuð til að styrkja fjárhaginn í tengslum við þessa fjárfestingu og aðra arðbæra uppbyggingu til framtíðar,“ segir Einar. „Við hlökkum til að eiga samtal við nýja meðeigendur Orkuveitunnar að félaginu um áframhaldandi uppbyggingu enda fer þörfin fyrir áreiðanlega innviði fjarskipta bara vaxandi,“ bætir Einar við. 

Helstu niðurstöður úr ársreikningi Ljósleiðarans árið 2023

  • Rekstrartekjur á árinu 2023 námu 4.349 m.kr. samanborið við 3.845 m.kr. árið 2022.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 2.728 m.kr. árið 2023 samanborið við 2.714 m.kr. árið 2022.
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 1.068 m.kr. árið 2023 samanborið við 1.300 m.kr. árið 2022.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 1.781 m.kr. árið 2023 en voru 1.409 m.kr. á árinu 2022.
  • Tap ársins 2023 nam 570 m.kr. samanborið við 87 m.kr. halla árið 2022.
  • Eignir félagsins í árslok 2023 námu 37.214 m.kr. og hækkuðu um 3.825 m.kr. frá fyrra ári.
  • Vaxtaberandi skuldir félagsins námu 18.963 m.kr. í árslok 2023 en voru 16.641 í árslok 2022.
  • Eiginfjárhlutfall Ljósleiðarans var 34,7% í lok árs 2023 og eigið fé 12.904 m.kr. 



Tengiliður:

Einar Þórarinsson 
Framkvæmdastjóri 
Einar.Thorarinsson@ljosleidarinn.is

Viðhengi


Mynd - Rekstur Ljósleiðarans 2019-2023

Attachments

Ársreikningur Ljósleiðarans ehf 2023