Landsbankinn hf.: S&P hækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB+


Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði hækkað lánshæfismat Landsbankans. Hækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismatið því BBB+ með stöðugum horfum.

Í tilkynningu S&P kemur m.a. fram að matið endurspegli væntingar um að Landsbankinn muni viðhalda leiðandi stöðu á íslenskum markaði og reksturinn verði áfram traustur. S&P telur efnahagshorfur á Íslandi vera góðar og að hagvöxtur hérlendis verði hærri en í öðrum Norðurlandaríkjum.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Ég er mjög ánægð og þetta eru frábærar fréttir fyrir okkur öll. Betra lánshæfismat endurspeglar mikla og góða vinnu innan bankans til margra ára og sterka stöðu íslensks efnahagslífs. Við höfum kappkostað að standa okkur vel í samkeppninni og erum leiðandi banki á Íslandi, líkt og S&P bendir á. Góður rekstur bankans skilar sér í samkeppnishæfum kjörum og frábærri þjónustu fyrir viðskiptavini um land allt. Bætt lánshæfi þýðir að bankinn mun hafa betra aðgengi að fjármálamörkuðum sem mun leiða til bættra kjara í framtíðinni. Ég fagna þessari breytingu hjá S&P og tel að það sé mikilvægt fyrir viðskiptavini að vita að bankinn þeirra standi styrkum stoðum.“

Hækkun á lánshæfismati úr BBB með jákvæðum horfum í BBB+ með stöðugum horfum kemur í framhaldi af tilkynningu S&P í nóvember 2023 um jákvæðar horfur lánshæfismats bankans.

Nánari upplýsingar eru í tilkynningu S&P sem aðgengileg er á vef bankans: https://www.landsbankinn.is/bankinn/fjarfestatengsl/lanshaefismat