Eimskip: Upplýsingar varðandi afkomu fyrsta ársfjórðungs 2024


Samkvæmt stjórnendauppgjöri fyrir janúar og febrúar, og rekstrarspá fyrir mars, sem nú liggur fyrir er áætlað að EBITDA Eimskips á fyrsta ársfjórðungi 2024 verði umtalsvert lægri en meðaltal af spám greiningaraðila (e. analyst consensus) sem nam 21 milljónum evra og birt var í dag, 5. apríl 2024. Áætlað er að EBITDA fjórðungsins verði á bilinu 13 - 15 milljónir evra og EBIT verði á bilinu -2,5 til -0,5 milljónir evra.

Eins og fram kom í síðustu fjárfestakynningu Eimskips, litaðist afkoma fjórða ársfjórðungs 2023 af skarpri lækkun í Trans-Atlantic flutningsverðum samanborið við fyrri árshelming 2023. Á fyrsta ársfjórðungi 2024 héldust Trans-Atlantic verðin áfram lág en neikvæð þróun markaðsaðstæðna á Íslandi setti aukinn þrýsting á afkomu félagsins. Verulega dró úr innflutningi á nýjum bílum á sama tíma og almennt hægðist á innflutningi til Íslands. Þá hafði loðnubrestur neikvæð áhrif á útflutning frá Íslandi, þó að útflutningur á annarri vöru á borð við úrgang til endurvinnslu hafi aukist og vegið upp tekjutap að einhverju leyti. Í Færeyjum fór árið einnig hægt af stað með minna flutningsmagni en á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.

Þegar fyrstu merki um samdrátt í flutningum til Íslands fóru að gera vart við sig, ásamt viðvarandi samdrætti í Færeyjum, sem hvort tveggja hefur neikvæð áhrif á afkomu áætlanasiglinga, réðust stjórnendur í ýmsar hagræðingaraðgerðir. Þar á meðal fækkun stöðugilda í alþjóðlegri starfsemi félagsins sem hafði í för með sér einskiptiskostnað að fjárhæð u.þ.b. 600 þúsund evra sem gjaldfærður var á fyrsta ársfjórðungi. Í lok febrúar innleiddi Eimskip breytingar á siglingakerfi félagsins með það meginmarkmið að draga úr olíunotkun, lækka kostnað og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ávinningur þessara breytinga raungerðist í mars en upphafskostnaður við breytingarnar vóg upp á móti sparnaði í mars. Litið fram á veginn, munu fyrrnefndar aðgerðir hafa jákvæð áhrif á rekstur félagsins, samhliða væntingum um aukið magn og umsvif á komandi mánuðum vegna hefðbundinna árstíðaráhrifa.

Eimskip vinnur enn að uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung 2024 og geta niðurstöður tekið breytingum í uppgjörsferlinu.

Eimskip birtir uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung eftir lokun markaða þriðjudag 7. maí 2024.

Nánari upplýsingar veitir Guðbjörg Birna Björnsdóttir, Forstöðumaður fjárfestatengsla í síma 844 4752 eða á investors@eimskip.is.