Sjóvá - Árshlutauppgjör vegna 3. ársfjórðungs 2024


Helstu niðurstöður úr árshlutauppgjöri Sjóvá-Almennra trygginga hf. vegna þriðja ársfjórðungs 2024:

Þriðji ársfjórðungur 2024

  • Hagnaður af vátryggingasamningum fyrir skatta 877 m.kr. (3F 2023: 595 m.kr.)
  • Hagnaður af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta 710 m.kr. (3F 2023: 1.319 m.kr.)
  • Hagnaður tímabilsins 1.441 m.kr. (3F 2023: 1.738 m.kr.)
  • Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu 2,3% (3F 2023: 3,0%)
  • Samsett hlutfall 89,9% (3F 2023: 92,7%)

Fyrstu níu mánuðir ársins 2024 og horfur

  • Hagnaður af vátryggingasamningum fyrir skatta 970 m.kr. (9M 2023: 995 m.kr.)
  • Hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta 757 m.kr. (9M 2023: 1.717 m.kr.)
  • Hagnaður tímabilsins 1.429 m.kr. (9M 2023: 2.304 m.kr.)
  • Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu 3,8% (9M 2023: 4,4%)
  • Samsett hlutfall 96,1% (9M 2023: 95,7%)
    • Horfur fyrir árið 2024 eru óbreyttar og gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingasamningum verði um 1.100-1.600 m.kr. og samsett hlutfall 95-97%
    • Horfur til næstu 12 mánaða gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingasamningum verði um 1.700-2.400 m.kr. og samsett hlutfall 93-95%

Hermann Björnsson, forstjóri:
Hagnaður Sjóvár á þriðja ársfjórðungi nam 1.441 m.kr. og samsett hlutfall var 89,9%. Afkoma fjárfestinga fyrir fjármagnsliði var 1.252 m.kr. og afkoma af vátryggingasamningum var 877 m.kr.

Afar sterkur grunnrekstur endurspeglar niðurstöður fyrir bæði þriðja fjórðung sem og fyrir fyrstu 9 mánuði ársins. Tekjuvöxtur á fjórðungnum er í takt við áætlanir og nam 6,9% sem er minna en síðustu misseri en taka verður tillit til þess að markaðshlutdeild Sjóvár hefur vaxið mikið undanfarin ár. Áfram verður lögð áhersla á arðbæran og skynsaman tryggingarekstur með framúrskarandi þjónustu en vöxtur er gjarnan afleiðing þess eins og hefur verið í tilfelli okkar.

Afkoma af fjárfestingastarfsemi fyrir fjármagnsliði á fjórðungnum nam 1.252 m.kr. sem er í samræmi við væntingar m.v. núverandi vaxtastig og samsetningu eignasafnsins. Markaðir voru heilt yfir góðir á fjórðungnum með lækkandi verðbólgu og væntingum um að vaxtalækkunarferli gæti hafist á síðasta fjórðungi ársins, sem varð raunin. Helstu tíðindin á fjórðungnum eru breytingar innan safns óskráðra hlutabréfa þar sem eignarhlutur Sjóvár í Controlant var færður niður um 417 m.kr., eignarhlutur í Loðnuvinnslunni upp um 178 m.kr. og eignarhlutur í Origo upp um 157 m.kr. Ávöxtun skráðra hlutabréfa var 6,1%, ríkisskuldabréfa 1,3%, annarra skuldabréfa 1,4% og safnsins alls 2,3%. Í lok þriðja fjórðungs nam stærð eignasafnsins 59,6 milljörðum kr.

Hagnaður Sjóvár fyrir skatta á fyrstu 9 mánuðum ársins nam 1.775 m.kr. Þar af nam hagnaður af vátryggingasamningum fyrir skatta 970 m.kr. og samsett hlutfall 96,1%. Þá var hagnaður af fjárfestingastarfsemi fyrir fjármagnsliði og skatta 2.016 m.kr. Mörg stór brunatjón hafa orðið á árinu sem nema samtals tæpum 1.200 m.kr. í eigin hlut og vigta um 5 prósentustig í samsettu hlutfalli. Í því ljósi má segja að niðurstöðurnar úr rekstri séu mjög sterkar.

Mikið var um að vera á nýliðnum ársfjórðungi og margar ánægjulegar fréttir af starfseminni.

Í október hlaut Sjóvá viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis FKA í sjötta sinn. Viðurkenningin er veitt þeim þátttakendum í verkefninu sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í efsta lagi stjórnunar. Þá hlaut Sjóvá viðurkenningu Stjórnvísi fyrir góða stjórnarhætti og um leið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum.

Sjóvá var einnig efst tryggingafélaga í Sjálfbærniásnum en Sjálfbærniásinn er nýr samræmdur mælikvarði sem mælir viðhorf íslenskra neytenda til frammistöðu fyrirtækja og stofnana í sjálfbærnimálum. Það er sérstaklega ánægjulegt að þessi viðurkenning byggi á svörum neytenda því það er einmitt í samstarfi við þá og okkar góðu samstarfsaðila sem við getum náð bestum árangri í þessum efnum, eins og dæmin sanna.

Sem fyrr er Sjóvá fyrsta val á tryggingamarkaði og með tryggustu viðskiptavinina skv. könnun Prósents í október 2024.

Við erum afar ánægð með þessar góðu niðurstöður og vitum að allt helst þetta í hendur og undirbyggir góðan rekstur.

Ánægjulegt er að segja frá því að fjórða björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar var afhent formlega á ráðstefnu Landsbjargar, Björgun. Þá var tilkynnt við sama tilefni að fjármögnun fyrir næsta björgunarskip félagsins væri tryggð og skrifað hefði verið undir samning um smíði skipsins, sem staðsett verður á Höfn í Hornafirði. Um miklar gleðifréttir er að ræða en Sjóvá hefur verið aðalstyrktaraðili Landsbjargar í áraraðir.

Í september sl. var gengið frá kaupréttarsamningum við starfsfólk félagsins í samræmi við samþykkta kaupréttaráætlun, auk viðauka sem samþykktur var í október og lýtur að arðsleiðréttingum. Kaupréttur samkvæmt áætluninni nær til allra fastráðinna starfsmanna Sjóvár og er markmið áætlunarinnar að samþætta hagsmuni starfsfólks við langtímahagsmuni félagsins og hluthafa þess.

Horfur okkar fyrir afkomu þessa árs og til næstu 12 mánaða eru óbreyttar, þ.e. að samsett hlutfall ársins 2024 verði 95-97% og afkoma af vátryggingasamningum verði 1.100-1.600 m.kr. Horfur til næstu 12 mánaða gera ráð fyrir að samsett hlutfall verði 93-95% og afkoma af vátryggingasamningum verði 1.700-2.400 m.kr.

Kynningarfundur 21. október kl. 16:15

Markaðsaðilum og fjárfestum er boðið á kynningarfund í fundarsal félagsins í Kringlunni 5, 6. hæð þann 21. október kl. 16:15. Þar munu Hermann Björnsson forstjóri, Sigríður Vala Halldórsdóttir framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni og Þórður Pálsson forstöðumaður fjárfestinga kynna uppgjörið og fara yfir afkomu félagsins. Kynningunni verður jafnframt streymt á slóðinni https://www.sjova.is/um-okkur/fjarfestar/afkomukynning-3f-2024/.
Vilji aðilar bera upp spurningar má senda þær á netfangið fjarfestar@sjova.is fyrir fundinn eða á meðan á fundi stendur og verður þeim svarað í lok kynningarinnar.

Uppgjörsefni verður aðgengilegt á vef Sjóvár www.sjova.is/fjarfestar frá þeim tíma er kynningin hefst og verður upptaka af fundinum aðgengileg á sömu síðu að fundi loknum.

Fjárhagsdagatal
Ársuppgjör 2024        6. febrúar 2025
Aðalfundur 2025        13. mars 2025

Nánari upplýsingar
Meðfylgjandi er fréttatilkynning, samandreginn árshlutareikningur samstæðunnar og fjárfestakynning Sjóvá-Almennra trygginga hf. vegna þriðja ársfjórðungs 2024.

Nánari upplýsingar veitir Davíð Scheving Thorsteinsson í síma 869-8109 eða fjarfestar@sjova.is.


Viðhengi



Attachments

Árshlutareikningur Sjóvá 30.9.2024 Fréttatilkynning Sjóvá 3F 2024 Sjóvá - Fjárfestakynning 3F 2024