Félagsbústaðir hf.: Ársreikningur 2024


Félagsbústaðir hf.: Ársreikningur 2024

Stjórn Félagsbústaða hf. samþykkti ársreikning félagsins fyrir árið 2024 á fundi sínum í dag 13. mars.

Hagnaður vegna hækkunar á eignasafni

Hagnaður félagsins á árinu nam 1.277 m.kr. og er hann allur tilkominn vegna hækkunar á virði fasteignamats eigna félagsins. Hagnaðurinn verður ekki innleystur nema með eignasölu.

Sjóðstreymi Félagsbústaða sýnir að handbært fé frá rekstri var 1.755 m.kr. samanborið við 1.205 m.kr. árið áður. Afborganir langtíma lána námu 1.606 m.kr. Helstu kennitölur reikningsins eru:

  • Rekstrartekjur ársins námu 7.078 m.kr.
    • Þar af námu leigutekjur 6.536 m.kr.
  • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu (EBITDA) nam 2.974 m.kr. eða 42,0% af rekstrartekjum
  • Heildarhagnaður nam 1.277 m.kr.
  • Handbært fé frá rekstri nam 1.755 m.kr.
  • Veltufé frá rekstri nam 1.654 m.kr.
  • Bókfært virði fjárfestingareigna nam 161.241 m.kr.
  • Matshækkun fjárfestingareigna í rekstrarreikningi nam 2.592 m.kr.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 63.774 m.kr.
  • Eiginfjárhlutfall nam 53,1%.
  • Vegnir verðtryggðir vextir námu 2,35%.
  • Nýtingarhlutfall eigna nam 98,0%.

Rekstur og afkoma

Rekstrartekjur Félagsbústaða á árinu 2024 námu 7.078 m.kr., er það aukning um 9,6% milli ára sem skýrist af hækkun leiguverðs vegna verðlagsbreytinga, aukins nýtingarhlutfalls eigna og stækkun eignasafnsins. Rekstur og viðhald eigna lækkar um 23 m.kr. eða um 0,7% á milli ára. Rekstrarhagnaðarhlutfall (EBITDA%) er 42,0% samanborið við 36,9% fyrir árið 2023.

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 162.695 m.kr. í lok árs en þær jukust um 2,6% frá ársbyrjun. Fjárfestingareignir jukust um 2,6% eða 4.062 m.kr., fjárfest var fyrir 960 m.kr. en matsbreyting og breyting leigueigna nam 3.102 m.kr. Heildarskuldir nema 64.736 m.kr. og hækkuðu um 1.810 m.kr. á árinu. Eigið fé hækkaði um 1,5% á tímabilinu. Eiginfjárhlutfall í lok árs nam 53,1% en 53,7% í lok árs 2023.

Þróun eignasafns

Félagsbústaðir fjárfestu í nýjum eignum fyrir 2.052 m.kr. á árinu 2024 en alls bættust 35 nýjar eignir við eignasafn félagsins þar á meðal glæsilegur nýr íbúðakjarni á Háteigsvegi 59 sem er hannaður með það í huga að lágmarka kolefnisspor hússins og útreikningar benda til að kolefnissporið verði 50% af viðmiðunarhúsi. Áfram var haldið með uppbyggingu á öðrum íbúðakjarna við Brekknaás 6 og unnið að hönnun á nýjum íbúðakjarna sem mun rísa við Nauthólsveg 83D en sú framkvæmd fór í útboð í byrjun árs 2025. Þá voru einnig seldar 8 fasteignir á árinu fyrir alls 1.092 m.kr. en félagið verður áfram vakandi fyrir tækifærum í sölu á eignum sem falla ekki vel að starfsemi þess en jafnframt er áformað að hverri sölu sé mætt með að kaupa aðra íbúð. Eignasafn Félagsbústaða í lok árs taldi alls 3.145 leigueiningar.

Fjármögnun

Félagsbústaðir eru með skráð skuldabréf í Kauphöll Íslands og fylgja þeim reglum sem gilda um skráð félög. Samþykktir félagsins kveða einnig á um fyrirkomulag ýmissa þátta í starfseminni og eru þær aðgengilegar á vefsíðu þess ásamt þeim lögum sem gilda um félagið.

Félagið fjármagnaði sig með lánum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á árinu að fjárhæð 474 m.kr. Skuldabréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, að fjárhæð 31 m.kr. var greitt upp á árinu sökum sölu á húsnæði sem áður var sambýli. Nettó lántaka á árinu var því um 443 m.kr.

Á árinu gerði félagið samninga um stofnframlög við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og Reykjavíkurborg vegna kaupa og nýbygginga sem námu 514 m.kr. Stofnframlög fjármagna almennt 30% til 34% af stofnvirði nýkeyptra eða nýbyggðra eigna og eru færð sem skuldbinding í efnahag félagsins. Skuldbindingin er uppreiknuð með sömu aðferðafræði og matsbreyting fjárfestingareigna. Skuldbindingin kemur til greiðslu í formi skuldabréfs þegar önnur fjármögnun vegna kaupa eða bygginga hefur verið uppgreidd.

Sjálfbærni

Félagsbústaðir gefa út í fyrsta skipti samþætta ársskýrslu sem samanstendur af þremur þáttum; skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra, sjálfbærniyfirliti og ársreikningi. Við gerð sjálfbærniyfirlits Félagsbústaða var litið til Corporate Sustainability Reporting Directive eða CSRD og leiðbeininga evrópska sjálfbærniskilastaðalsins European Sustainability Reporting Standards (ESRS), þó að Félagsbústaðir falli ekki undir gildissvið þeirra að svo stöddu.

Sjálfbærnimál félagsins hafa verið í stöðugri þróun frá upphafi starfsemi þess en hafa þróast markvisst frá árinu 2018 þegar félagið byrjaði að aðlaga sig að nýrri nálgun. Félagsbústaðir taka nú annað markvisst skref í því að aðlaga sig enn frekar að nýrri framkvæmd og skýrari leiðbeiningum með tilkomu CSRD sem er ætlað að auka gagnsæi, samanburðarhafni upplýsinga og ábyrgð á sjálfbærnimálum fyrirtækja.

Á árinu 2024 var unnin tvíþátta mikilvægisgreining í samræmi við CSRD og ESRS. Sú vinna var nýtt við undirbúning á sjálfbærniyfirliti félagsins. Við gerð yfirlitsins var litið til CSRD og ESRS en einnig skýrslugjafar fyrri ára. Á árinu 2025 er ætlunin að vinna frekar í aðlögun að þeirri bestu framkvæmd sem er að myndast á markaðnum við sjálfbærnimál. Í því felst að fylgjast með framvindu og innleiðingu á CSRD og ESRS í íslensk lög, framkvæma ítarlegri greiningu á frávikum (gloppugreiningu), dýpka tvíþátta mikilvægisgreininguna, uppfæra sjálfbærniinnviði félagsins, kortleggja möguleika á mælanlegum markmiðum og aðgerðaráætlunum.

Nánari upplýsingar veitir:

Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri, sigrun@felagsbustadir.is, sími 520 1500

Viðhengi



Attachments

Ársreikningur Félagsbústaða 2024 Félagsbústaðir Ársskýrsla 2024 Ársreikningur Félagsbústaða 2024 undirritaður

Recommended Reading