Ársreikningur Íslandshótela hf. fyrir árið 2024


Ársreikningur Íslandshótela hf. fyrir árið 2024 

Stjórn Íslandshótela hf. staðfesti á fundi í dag, föstudaginn 4. apríl 2025, ársreikning félagsins fyrir árið 2024. Ársreikningur félagsins hefur nú verið birtur. 

Helstu lykiltölur ársins 2024 samanborið við 2023: 

  • Rekstrartekjur námu 16.669 m.kr. (2023: 16.784 m.kr.) 
  • EBITDA nam 4.415,8 m.kr. (2023: 4.956,4 m.kr.) 
  • Hagnaður eftir skatta nam 104,8 m.kr. (2023: 498,0 m.kr.) 
  • Heildareignir í árslok 65.430,3 m.kr. (2023: 62.839,2 m.kr.) 
  • Bókfært eigið fé í árslok 25.746,0 m.kr. (2023: 22.782,4 m.kr.) 
  • Eiginfjárhlutfall í árslok 39,3% (2023: 36,3%) 

Á árinu 2024 störfuðu að jafnaði 647 manns hjá félaginu miðað við heilsársstörf.  

Bókfært virði eigna Íslandshótela hækkaði um 3.573,5 m.kr. eftir að virðismat á fasteignum félagsins var endurmetið, samkvæmt mati óháðs sérfræðings. 

Félagið er sem fyrr í fararbroddi í ferða- og gistiþjónustu hér á landi og heldur áfram að leita vaxtartækifæra í greininni. Íslandshótel hafa sett sjálfbærni í forgang, og öll hótel félagsins hafa nú hlotið Green Key vottun. Félagið skrifaði einnig undir Glasgow-yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsaðgerðir í ferðaþjónustu og fékk Umhverfisverðlaun Terra 2024 fyrir aðgerðir í endurvinnslu og úrgangsmálum. Um mitt síðasta ár tilkynnti stjórn félagsins að ákveðið hefði verið að falla frá fyrirhuguðu útboði hlutafjár í félaginu. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um hvort félagið stefni á skráningu síðar. 

Stjórn leggur til að ekki verði greiddur arður vegna ársins 2024 og að afkoma ársins verði færð yfir til næsta árs. 

Áskoranir í ytra umhverfi settu sitt mark á rekstur Íslandshótela á síðasta ári en heilt yfir gekk reksturinn vel. Rekstrargrundvöllur félagsins var styrktur, fjárfest var í sjálfbærni og vaxtartækifæri nýtt, enda stefna Íslandshótela vel mótuð og framtíðarsýnin skýr. Íslandshótel eru í sterkri stöðu til að halda uppbyggingu sinni áfram, mæta áframhaldandi eftirspurn og áskorunum og styðja við vöxt ferðaþjónustunnar á komandi árum,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela. 

Ársreikningur félagsins er meðfylgjandi og er hann einnig að finna á heimasíðu félagsins, www.islandshotel.is/fjarfestar 

Félagið er með skráð skuldabréf í Kauphöll Íslands og fylgir þeim reglum sem gilda um félög með skráða fjármálagerninga á skipulegum markaði. Meðfylgjandi er staðfestingarbréf frá Deloitte vegna skuldabréfaflokks IH140647. 

Attachments



Attachments

Ársreikningur 2024 - Íslandshótel hf. (samstæða) Skýrsla Deloitte vegna skuldabréfaútgáfu eftirlitshlutverk 2024 (UR)