Níu mánaða uppgjör Landsvirkjunar


Traustur rekstur og auknar tekjur af raforkusölu

  • Hagnaður af grunnrekstri Landsvirkjunar á þriðja ársfjórðungi nam 6,8 milljörðum króna og handbært fé frá rekstri 5,6 milljörðum.
  • Fjárhagur fyrirtækisins er áfram sterkur, eiginfjárhlutfall 63,1% og skuldsetning  1,5× rekstrarhagnaður fyrir afskriftir.
  • Tekjur af raforkusölu jukust á tímabilinu miðað við sama tíma í fyrra.

Hörður Arnarson, forstjóri:

Rekstur aflstöðva Landsvirkjunar var áfram stöðugur á þriðja ársfjórðungi, í kjölfar þess að vatnsbúskapur batnaði til muna á fyrri hluta árs. Staða lóna er áfram góð og engar vísbendingar um að skerða þurfi afhendingu á raforku í vetur.

Afkoma tímabilsins var ásættanleg miðað við aðstæður. Tekjur af raforkusölu jukust um 7% frá sama tímabili ársins 2024 og er það einkum vegna álverðstengingar í samningum, en álverð hækkaði um 8%. Hagnaður af grunnrekstri dróst saman um 14% frá fyrra ári, m.a. vegna sektargreiðslu til Samkeppniseftirlits og aukins flutningskostnaðar raforku.

Fjárhagsleg staða er sem fyrr sterk, en nettó skuldir hafa lækkað um 39 milljónir bandaríkjadala frá áramótum og eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins var 63,1%. Arðsemi eiginfjár fyrstu níu mánuði ársins jókst milli ára og var 7,8%, borin saman við 6,9% á sama tímabili 2024.

Alvarleg bilun hjá Norðuráli í október, sem olli því að framleiðsla stöðvaðist í tveimur þriðju hluta kera fyrirtækisins, hefur ekki áhrif á uppgjör þriðja ársfjórðungs. Verið er að meta áhrif bilunarinnar á fjárhag Landsvirkjunar, þar er meðal annars verið að skoða hvort kaupskylda Norðuráls sé áfram til staðar gagnvart Landsvirkjun og hvort tryggingar Landsvirkjunar bæti tjónið, komi til þess að kaupskyldan falli niður.

Viðhengi



Attachments

Upplýsingar_úr_uppgjöri Árshlutareikningur janúar til september 2025