Félagsbústaðir hf.: Árshlutareikningur 30.09.2025


Árshlutareikningur Félagsbústaða 30.09.2025

Stjórn Félagsbústaða hf. samþykkti árshlutareikning félagsins fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2025 á fundi sínum í dag 20. nóvember.

Hagnaður vegna hækkunar á eignasafni

Hagnaður félagsins á tímabilinu nam 6.996 m.kr., sem skýrist að mestu af matsbreytingu fjárfestingareigna. Hagnaðurinn verður ekki innleystur nema með eignasölu.

Sjóðstreymi Félagsbústaða sýnir að handbært fé frá rekstri var 796 m.kr. samanborið við 1.320 m.kr. árið áður. Afborganir langtímalána námu 1.175 m.kr. Helstu kennitölur reikningsins eru:

  • Rekstrartekjur tímabilsins námu 5.528 m.kr.
  • Afkoma fyrir matsbreytingu (EBITDA) nam 2.474 m.kr. eða 44,8% af rekstrartekjum
  • Matshækkun fjárfestingareigna á tímabilinu nam 7.871 m.kr.
  • Virði fjárfestingareigna í lok tímabilsins er 171.039 m.kr.
  • Eigið fé í lok tímabilsins er 93.423 m.kr.
  • Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins er 54,3%
  • Vaxtaberandi skuldir í lok tímabils nema 65.297 m.kr.

Rekstur og afkoma

Rekstrartekjur Félagsbústaða á tímabilinu námu 5.528 m.kr., sem er aukning um 5,0% frá sama tímabili í fyrra. Aukningin skýrist af hækkun leiguverðs vegna verðlagsbreytinga og stækkun eignasafnsins. Rekstur og viðhald eigna jókst um 154 m.kr. eða um 6,6% á milli ára. Rekstrarhagnaðarhlutfall (EBITDA%) er 44,8% samanborið við 45,8% á sama tíma árið áður.

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 172.126 m.kr. í lok tímabilsins en þær jukust um 5,8% frá ársbyrjun. Fjárfestingareignir jukust um 6,1% eða 9.798 m.kr., nettó fjárfesting var 1.335 m.kr. en matsbreyting og breyting leigueigna nam 8.463 m.kr. Heildarskuldir nema 66.180 m.kr. og hækkuðu um 1.445 m.kr. fyrstu 9 mánuði ársins. Eigið fé jókst um 6.996 m.kr. á tímabilinu. Eiginfjárhlutfall í lok tímabils var 54,3% en 53,1% í lok árs 2024.

Þróun eignasafns

Á tímabilinu fjárfestu Félagsbústaðir í nýjum eignum fyrir 1.476 m.kr. og bættust 17 nýjar eignir við eignasafn félagsins. Tvær eignir voru seldar á tímabilinu. Áfram var unnið að uppbyggingu á íbúðakjarna við Brekknaás 6 sem áætlað er ljúki veturinn 2025. Þá hófust framkvæmdir við nýjan íbúðakjarna við Nauthólsveg 83D sem áætlað er að verði fullbyggður undir lok árs 2026.

Fjármögnun

Félagsbústaðir eru með skráð skuldabréf í Kauphöll Íslands og fylgja þeim reglum sem gilda um skráð félög. Samþykktir félagsins kveða einnig á um fyrirkomulag ýmissa þátta í starfseminni og eru þær aðgengilegar á vefsíðu þess ásamt þeim lögum sem gilda um félagið.

Á tímabilinu fjármagnaði félagið sig með lánum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að fjárhæð 86 m.kr. Skuldabréfaflokkurinn FEL 04 1 var greiddur upp á tímabilinu, uppgreiðslan nam 319 m.kr. Nettó lántaka á tímabilinu var því neikvæð um 233 m.kr.

Félagið gerði einnig samninga um stofnframlög við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og Reykjavíkurborg vegna kaupa og nýbygginga sem námu 400 m.kr. Stofnframlög fjármagna almennt 30% til 34% af stofnvirði nýkeyptra eða nýbyggðra eigna og eru færð sem skuldbinding í efnahag félagsins. Skuldbindingin er uppreiknuð með sömu aðferðafræði og matsbreyting fjárfestingareigna. Skuldbindingin kemur til greiðslu í formi skuldabréfs þegar önnur fjármögnun vegna kaupa eða bygginga hefur verið uppgreidd.

Nánari upplýsingar veitir:

Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri, sigrun@felagsbustadir.is, sími 520 1500

Viðhengi



Attachments

Árshlutareikningur Félagsbústaða 30.9.2025 Árshlutareikningur Félagsbústaða 30.9.2025 undirritaður