Pétur Freyr Pétursson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Íþöku fasteigna ehf. Hann mun taka við starfinu af Gunnari Val Gíslasyni sem hefur tilkynnt stjórn félagsins að hann hyggist láta af störfum sem framkvæmdastjóri félagsins í árslok 2025. Pétur Freyr tekur við starfinu í byrjun árs 2026 en Gunnar Valur mun áfram gegna starfi framkvæmdastjóra móðurfélagsins, Íþöku ehf.
Pétur Freyr er vel kunnugur félaginu en hann hefur verið viðskiptastjóri Íþöku fasteigna ehf. frá 1. mars 2023, sat í stjórn félagsins frá 9. apríl 2021 til 30. mars 2023 og sem varamaður í stjórn frá 1. apríl 2023. Pétur Freyr stundaði háskólanám í Bandaríkjunum og er með BS gráðu í viðskiptafræði og viðbót í markaðsfræðum frá Costal Carolina & Nicholls State University.
Stjórn Íþöku fasteigna ehf. býður Pétur Frey Pétursson velkominn til starfa sem framkvæmdastjóri félagsins. „Með komu Péturs Freys heldur þróun félagsins áfram með áherslu á ábyrgan rekstur, styrkingu eignasafnsins og langtímasamstarf við leigutaka. Pétur Freyr er með skýra framtíðarsýn sem fellur vel að stefnu stjórnar um stöðugan og sjálfbæran vöxt“, segir Björn Ingi Victorsson stjórnarformaður Íþöku fasteigna ehf. „Um leið vill stjórn þakka Gunnari Val Gíslasyni fyrir farsæl og öflug störf sem framkvæmdastjóri. Framlag hans hefur lagt traustan grunn að stöðu Íþöku fasteigna ehf. í dag. Við óskum honum velfarnaðar og hlökkum til áframhaldandi samstarfs á öðrum vettvangi“.
Inntur um framtíð og vegferð Íþöku fasteigna ehf. í kjölfar framkvæmdastjóraskipta segir Pétur Freyr Pétursson: „Það er heiður að taka við af Gunnari Val sem starfað hefur fyrir samstæðuna í rúm 20 ár. Ég tek við traustum rekstri og hlakka til að leiða félagið áfram og sækja fram í farsælu samstarfi við leigutaka okkar“.
Frekari upplýsingar veitir Björn Ingi Victorsson, stjórnarformaður Íþöku fasteigna ehf., sími 856-3318 og netfang: bjorn@steypustodin.is.