Breyttar forsendur vegna fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2026


Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2026 og fimm ára tímabilið til 2030 verður tekið til síðari umræðu í borgarstjórn þriðjudaginn 2. desember næstkomandi.

Lagðar voru fram í borgarráði í dag breyttar forsendur fyrir fjárhagsáætlun í samræmi við nýja þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birt var þann 14. nóvember sl. Í uppfærðri þjóðhagsspá er nú gert ráð fyrir minni hagvexti, hærri verðbólgu og lakari horfum á vinnumarkaði. Spáin tekur mið af dræmari útflutningshorfum í kjölfar ýmissa rekstraráfalla undanfarinna mánaða.

Uppfærð spá gerir ráð fyrir 5,2% launaþróun á árinu 2026, sem er um 0,7 prósentustigum hærra en í þjóðhagsspá sem forsendur frumvarps að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar byggir á.

Orkuveita Reykjavíkur lagði fram breytta fjárhagsspá fyrir árið 2026 þann 24. nóvember sl. vegna þess að Norðurál, stærsti einstaki viðskiptavinur Orkuveitunnar, hefur upplýst félagið um að greiðslufall verði af hálfu fyrirtækisins vegna endurtekinna bilana í álveri þess á Grundartanga. Breytingar á fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur fela í sér:

  • 1,0 milljarða króna lægri rekstrarhagnaður á yfirstandandi ári en í fyrri spá.
  • Niðurskurð rekstrarkostnaðar um 2 milljarða króna á árinu 2026.
  • 6 milljarða króna lækkun fjárfestinga á því ári.
  • Lækkun arðgreiðslna um 2 milljarða króna á árinu 2026.

Það er mat fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar að tilefni sé til að endurskoða áætlun um arðgreiðslur í A-hluta til samræmis, en breytt fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur hefur áhrif á arðgreiðslur til A-hluta til lækkunar um 1.871 milljón króna.

Áhrif breyttra forsenda í þjóðhagsspá Hagstofu á fjárhagsáætlun A-hluta Reykjavíkurborgar felast helst í meiri verðbólgu, meiri hækkun launa og lakari horfum á vinnumarkaði. Áhrifin eru til hækkunar á útsvarstekjur sem rekja má til launaþróunar en á móti hafa forsendur um vinnumagn verið dregnar niður. Áhrifin eru neikvæð á gjaldfærslu lífeyrisskuldbindingar og fjármagnsliði.

Heildaráhrif breyttrar fjárhagsspár Orkuveitu Reykjavíkur og nýrrar þjóðhagsspár Hagstofu á rekstrarniðurstöðu A-hluta eru metin neikvæð um 1.332 milljónir króna sem hefur í för með sér að rekstrarniðurstaðan lækkar úr 4.763 milljónir króna í 3.431 milljónir króna að öðru óbreyttu. Gjaldfærsla lífeyrisskuldbindingar og verðbætur eru reiknaðir liðir sem ekki hafa áhrif á sjóðstreymi A-hluta og þar með talið veltufé frá rekstri. Heildaráhrifin á sjóðstreymi A-hluta eru neikvæð um 217 milljónir króna og lækkar þannig handbært fé í árslok úr 17.061 í 16.844 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að öll markmið fjármálastefnu séu uppfyllt þrátt fyrir þessar breytingar.

Reykjavík, 27. nóvember 2025.

Nánari upplýsingar veitir

Halldóra Káradóttir sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs

halldora.karadottir@reykjavik.is

Viðhengi



Attachments

Reykjavíkurborg - FRÉTTATILKYNNING_2025-11-27

Recommended Reading