Fjárhagsáætlun 2026 með áherslu á fjárfestingu í þágu barna og ungmenna samþykkt


Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2026. 

Áætlunin gerir ráð fyrir áframhaldandi stöðugum rekstri og markvissum fjárfestingum í þágu barna- og ungmenna,  íþróttastarfsemi og innviðauppbyggingu. 

Leikskólagjöld eru áfram þau lægstu á höfuðborgarsvæðinu og áfram verður 12 mánaða börnum tryggð leikskólavistun að hausti.

Ætlað er að framkvæma fyrir rúmlega fjóra milljarða í fjölbreyttum verkefnum sem styðja við velferð og uppbyggingu innviða.  Ný skammtímadvöl fyrir fötluð börn og ungmenni og fjölskylduheimili fyrir börn verða opnuð á árinu 2026. Þá er áfram unnið að endurgerð skólalóða, boðin út bygging og rekstur nýrrar þjónustu- og aðkomubyggingar við Varmá og  lokið við endurbætur á Varmárskóla. Auk þess sem umfangsmiklar veituframkvæmdir og gatnagerð verða í takti við vaxandi íbúafjölda.

Helstu tölur:

  • Rekstrarafgangur A- og B-hluta er áætlaður: 557 m.kr.
  • Rekstrarafgangur A-hluta: 254 m.kr.
  • Rekstrartekjur eru áætlaðar 24.692 m.kr.
  • Rekstrargjöld eru áætluð 21.924 m.kr.
  • Veltufé frá rekstri A- og B- hluta: 2.191 m.kr. (8,9% af heildartekjum)
  • Skuldaviðmið A- og B-hluta, áætluð við árslok 2026: 102%
  • Útsvar verður óbreytt: 14,97% 
  • Fasteignaskattur A lækkar úr 0,20% í 0,19%
  • Fráveitugjald lækkar úr 0,089% í 0,084% 

„Fjárhagsáætlunin fyrir árið 2026 sýnir áframhaldandi traustan rekstur og miklar fjárfestingar í innviðum og endurbætur á skólahúsnæði og skólalóðum ” segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri. ,,Þá höldum við áfram að fjárfesta í íþróttamannvirkjum en á árinu verður bygging og rekstur nýrrar þjónustu- og aðkomubyggingar boðinn út.” 

Viðhengi



Attachments

Fjárhagsáætlun 2026-2029 Greinargerð með fjárhagsáætlun 2026

Recommended Reading